25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Matthías Ólafsson:

Jeg hefði getað sparað mjer að mæla með brtt. á þgskj. 979, ef mjer hefði ekki þótt þau orð, sem flm. hafði um hana. vera fá og kraftlítil.

Jeg býst við, að hv. þingdeildarmönnum sje þetta mál ekki eins kunnugt og mjer. Og jeg skal játa, að jeg tel það vanrækslu af mjer, að jeg skuli ekki hafa orðið fyrri til að koma með slíka till., og óska jeg því, að hv. deildarmenn greiði henni atkvæði.

Maður þessi hefir gert meira að því en flestir aðrir að bjarga mönnum úr sjávarháska. Eins og skýrsla sú ber með sjer, sem hjer liggur fyrir, hefir hann bjargað 53 mönnum, sem óhjákvæmilega hefðu farist ella. Og þess utan er efasamt, hvort 12 menn aðrir hefðu ekki druknað, ef hann hefði ekki bjargað þeim. Þar að auki hefir hann orð á sjer sem ráðsnjall og duglegur hafnsögumaður. Hygg jeg, að hann eigi þessa viðurkenningu skilda flestum fremur. Alls hefir hann bjargað mönnum 6 sinnum úr sjávarháska, og auk þess 12 mönnum úr enskum botnvörpungi, sem varla hefðu komist af ella. En hinum 53 hefir hann bjargað sumpart úr fullum skipum af sjó eða af kjöl. Ed. hefir sæmt annan mann, Sveinbjörn Sveinsson á Hámundarstöðum í Vopnafirði, með 2000 kr. fyrir samskonar afrek. Þó liggur ekki fyrir nein skýrsla um afrek hans. Er því auðsætt, að Jón Sturlaugsson hefði átt að taka fram yfir hann.

Þá eru 1000 kr. í viðurkenningarskyni til Guðmundar Hjaltasonar. Jeg veit, að það, sem um hann hefir verið sagt, er rjett, og að hann er allrar virðingar verður. Það, sem mjer þykir að till. hv. 1. þm. Árn. (S. S.). er, að hún gerir Jón Sturlaugsson jafnan Guðmundi Hjaltasyni. Hann ætti að rjettu lagi að fá meira, en úr því er ekki hægt að bæta hjeðan af. Jeg hefði óskað, að hann hefði verið settur hæst af þeim mönnum sem til álita hafa komið. Annars ættu tilmæli um slíkar viðurkenningar sem þessa að koma frá Fiskifjelagi Íslands, og því að eins að vera teknar til greina að það legði með þeim ef þær kæmu annarsstaðar frá.