13.08.1919
Neðri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

50. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Frsm. (Einar Arnórsson):

Eins og mönnum er kunnugt, var frv. þetta borið fram af hv. þm. Dala. (B. J ) og mestmegnis sniðið eftir frv. stjórnarinnar frá 1901, enda er það að stefnunni til það sama. Allsherjarnefnd hefir fallist á, að frv. eins og þetta eigi að ganga fram og verða að lögum, en hefir gert ýmsar brtt. við það, eins og sjá má á þgskj. 281. Við eignarheimildirnar hefir nefndin bætt við arfsali, og þótti henni jafnframt rjett að liða skilyrðin fyrir að öðlast eignarheimildina sundur í fjóra liði. Er þar þó ekki um efnisbreytingar að ræða, heldur eru ákvæðin að eins tekin hjer fram miklu skýrar en í frv. stjórnarinnar frá 1901 og frv. hv. þm. Dala. (B. J.).

Aftur á móti er um efnisbreytingu frá þessum tveim frv. að ræða, þar sem nefndin vill svo vera láta, að leiguleyfi eða leyfi til rjettinda yfir fasteign þurfi ekki til 3 ára, þar sem frv. frá 1901 og frv. háttv. þm. Dala. (B. J.) vill láta leita leyfisins ef leigutími er lengri en 1 ár. Það fanst nefndinni of stuttur tími. Svo kemur síðast í 1. brtt. lík skýringargrein á orðinu notkunarrjettur sem í frumvarpinu.

Nú hefir komið fram brtt., á þgskj. 310, frá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), um að bæta inn í 6. málsgrein, að um leyfi til að nota vatnsorku skuli fara eftir því, sem ákveðið kann að verða í sjerleyfislögum. Jeg geri ráð fyrir því, að nefndin sjái ekki ástæðu til að vera á móti þessari brtt., en þess ber að gæta, ef hún verður samþ., að breyta þarf þá orðalagi á öðrum stað í sömu grein, þar sem talað er um hagnýting á vatnsorku. Væri því best, ef hv. þm. (Sv. Ó.) vildi geyma brtt. til 3. umr., svo nefndin gæti þá skeytt þessu inn í frv. milli 2. og 3. umr.

Í brtt. við 2. gr. hefir nefndin tekið upp orðið afsal, en í frv. er talað um fullnaðargerð. Mjer er ekki ljóst, að fullnaðargerð geti þarna þýtt annað en afsal. En svo kann þó að vera, að flm. (B. J.) hafi meint eitthvað meira með því. Fullnaðargerð er töluvert þokukent hugtak, og ætti því ekki að nota það. Má vel vera, að nefndin hafi ekki skilið það rjett, og mun hún athuga, hvort ekki muni þá mega finna rjetta orðið, ef svo reynist.

Fyrri brtt. við 3. gr. frv., um að bæta inn orðunum „eða innritunar fyrirfram“, er ekki efnisbreyting, heldur að eins nánari skýringar. Aftur á móti er um efnisbreytingu að ræða í 2. lið brtt. við sömu gr. Vill flm. láta valdsmenn neita um þinglýsingu, ef skilyrðin, sem krafist er í 1. gr., eru ekki fyrir hendi. En nefndin vill þetta ekki. því að vel getur verið, að vafasamt sje um, hvort skilyrðin eru uppfylt, og þurfi sjerstakrar athugunar á því, en jafnrangt að neita mönnum um þinglýsingu fyrir því. Í viðskiftum manna hjer á landi er alment ekki neitað um þinglýsingu þótt á skorti heimild beiðanda, en þá er skráð athugasemd í bækur embættisins, og sama ætlast nefndin til að hjer sje gert, og að ráðherra sje svo skýrt frá málavöxtum.

Brtt. við 4. gr. er tæpast hægt að kalla efnisbreytingar. en nefndin hefir viljað kveða nánar á um, hvernig fara skuli að ef maður er orðinn eigandi að fasteign eða t. d. búinn að taka jörð á leigu, án þess að hafa uppfylt skilyrðin. Frest hlutaðeiganda til að koma málinu í löglegt horf, rifta kaupunum eða fá rjettindin öðrum, taldi nefndin rjett að lengja.

10. brtt. gengur í þá átt, að bæta þrem nýjum greinum inn í frv. Sú fyrsta er um það, hvernig fara skuli að við þá, er öðlast hafa rjettindi samkvæmt 1. gr. áður en lögin ganga í gildi. Finst nefndinni rjett, að farið sje þar að á líkan hátt Að eins virðist henni sanngjarnt, að fresturinn sje settur lengri en við hina, og stingur nefndin upp á 5 ára fresti.

Önnur viðbótargreinin er um það, hverjir sjeu undanþegnir þessum lögum. Í henni stendur ekki mikið annað en það, sem talið mundi þó gilda að lögum, en það má segja um hana, að „superflua non nocent“, og spillir ekki til, að það sje tekið fram, til hverra lögin nái ekki. Er það þá fyrst, að þau eiga ekki að ná til umboðsmanna ríkisins, nje heldur til námsmanna og sjúklinga. Og um annan lið virðist ekki orka tvímælis, að það sje sjálfsögð kurteisisskylda við erlend ríki, að láta þau vera undanþegin þeim skyldum, sem lögin leggja mönnum á herðar, þegar svo stendur á, að þau þurfa að kaupa hjer embættisbústað handa umboðsmönnum sínum.

3. töluliður greinarinnar er um það, að lögin taki ekki til þegna annara ríkja, að því leyti, sem þau kynnu að koma í bága við milliríkjasamninga. Þar er gert ráð fyrir undantekningu, sem ef til vill má deila um hvort er þörf, en nefndinni þótti samt rjett að láta hana fylgja með.

Annars fær nefndin ekki sjeð, að gengið sje á gerða samninga með ákvæðum frv. þessa. Hjer er ekki heimtaður ríkisborgararjettur sem skilyrði fyrir því að öðlast rjettindi yfir fasteign, heldur báseta. Búsetuákvæðið gengur jafnt yfir alla, bæði íslenska ríkisborgara og aðra, og er því ekki raskað jafnrjettisákvæðum í þjóðasamningum, sem Ísland er bundið við, með því.

Stjórnin, sem sat að völdum 1901, hefir gert glögga grein fyrir því í greinargerð fyrir frv. sínu, hvort með því yrði brotið í bág við gerða þjóðasamninga. Danir höfðu sem sje gert samninga við ýms ríki, og eftir því, sem meðferð utanríkismálanna var háttað og sambandinu milli landanna, þá voru þeir samningar líka bindandi fyrir Ísland. Danir höfðu t. d. gert samninga við Belgíu 1895 um jafnrjetti til atvinnurekstrar. Hjer er að eins um jafnrjetti að ræða, og getur það þess vegna ekki komið í bága við það, þó búseta sje heimtuð, því hún er heimtuð af öllum.

Jeg sje ekki þörf frekari orða, vænti þess að eins, að hv. deild lofi málinu að ganga til 3. umr. Nefndin tekur með þökkum öllum bendingum og athugasemdum og mun taka slíkt til íhugunar fyrir 3. umr.