13.08.1919
Neðri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

50. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer sýnist, að þetta frv. hafi tekið miklum bótum hjá hv. allsherjarnefnd, sjerstaklega með tilliti til þess, að nú er stjórninni veittur talsvert meiri rjettur til að gera undanþágur frá lögunum. Það tel jeg alveg nauðsynlegt. Sjerstaklega ef litið er á undantekningarnar í 11. gr. frumvarpsins. Jeg hygg, að ekki sje nema rjett og eðlilegt að setja slíkar takmarkanir, sem hjer er gert. Hitt er annað mál, hvort þær eru nægar, og hvort ekki væri ástæða til að athuga þetta mál betur en hv. þingi er fært, með sínum takmarkaða tíma. Um það skal jeg ekki segja. Jeg vil t. d. benda á, að umboðsmenn annara ríkja eru undanteknir. En því þá ekki eins stofnanir erlendra ríkja? Jeg hygg að menn muni engu síður eftir, að t. d. sjerstaklega Frakkar eiga sjúkrahús nokkuð víða hjer á landi, og auk þess skóla og kirkju. Jeg býst nú við, að úr þessu verði engin vandræði, ef sá skilningur er rjettur, að heimild stjórnarinnar til að gera undanþágur sje talsvert rúm. Það þarf svo að vera. Slíkar undantekningar geta oft verið nauðsynlegar, sjerstaklega þegar um húseign er að ræða. Síður um jarðeignir. Yfirleitt finst mjer frv. hafa tekið bótum. Jeg er ekki viss um, hvort nauðsynlegt hafi verið að undantaka námsmenn, sjúklinga o. fl. Líka vildi jeg mega skjóta því til hv. nefndar, hvernig ætti að skilja þennan 5 ára frest, sem talað er um í 10. gr. frv., í sambandi við 4. gr. í 10. gr. frv. stendur: „Nú hefir einhver sá öðlast rjettindi samkvæmt 1. gr yfir fasteign áður en lög þessi öðlast gildi, ef eigi fullnægir skilyrðum þeirrar gr., og skal honum þá veittur 5 ára frestur frá 1. jan. 1920 til að koma málinu í löglegt horf“. — En auk þess er í 4. gr. talað um, að ráðherra hafi heimild til að veita frest, alt að 3 árum. Spurningin er, hvort þetta má skilja svo, að stjórnin megi veita þennan 3 ára frest eftir að hinn (5 ár) er útrunninn, eða hvort meiningin er, að ekki sje hafður fyrir augum frestur sá, sem stjórnarráðið veitir.