30.08.1919
Efri deild: 44. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

50. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Frsm. (Magnús Torfason):

Frv. þetta inniheldur nokkurskonar landvarnarákvæði, og er það atriði frv. gamalkunnugt hjer á hv. Alþingi. Hjer á landi er óhjákvæmilegt að setja slík ákvæði sem þessi; en jeg verð að taka fram, að þau eru eingöngu sett til þess að verja landið aðsúg og ágengni erlendra þjóða, en ekki til þess að sporna við, að útlendingar geti rekið hjer löglega atvinnu, sem eigi gerir landinu neinn skaða. Tilgangurinn er alls eigi að ýfast við útlendingum á nokkurn hátt.

Eins og nefndarálitið ber með sjer, hefir nefndin fallist á frv. að mestu leyti. Allar brtt. eru orðabreytingar, nema að eins sú fyrsta; sömuleiðis er brtt. á þgskj. 561 eingöngu málsrjetting.

1. brtt. a. miðar til þess að lina á kröfunum til þeirra, sem leigurjettinn vilja nota. Oftast verður hann að leggja fram töluvert fje til þess að geta hagnýtt sjer rjettinn, og er þá ekki nema sanngjarnt, að hann fái lengri uppsagnarfrest. Menn eru nú líka farnir að leigja hús með lengri uppsagnarfresti en áður, vanalega ársfresti, svo menn fái tíma til að geta bygt sjer hús, áður en þeir missa íbúðina. Aftur á móti miðar 1. brtt. b. heldur til að herða á kröfunum. Við nánari íhugun vildi nefndin ekki ívilna útlendingum meir en svo, að ráðherra gæti gefið undanþágu, ef honum þætti svo henta. Má vera, að mönnum finnist, að þetta atriði hafi ekki mikla þýðingu, sjerstaklega þegar trúin á málmana er óðum að þverra. En landið er að mestu órannsakað enn, og ekki er að vita, nema menn geti fundið málma í jörðu hjer á landi, og er þá gott að geta gripið til þessa ákvæðis.

Vona jeg, að hv. deildarmenn sjeu nefndinni sammála um, að orðabreytingarnar sjeu til bóta. Brtt. á þgskj. 561 er gerð til enn frekari málsrjettingar, til þess að eigi sjeu tvær „enda“-setningar í sama málslið.