18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

50. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

2086Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg get ekki verið sammála hæstv. forsætisráðh. (J. M.) um það, að sjerstakar ástæður lægju til þess að láta þetta frv. bíða eftir löggjöfinni um atvinnurekstur manna alment. — Hættan á því, að útlendingar seilist til landa hjer og auðæfa, er sú sama, hvort sem atvinnulöggjöfin er komin í fast skipulag eða ekki. Auk þess er ekki að vita, hvað langt verður að bíða eftir þessari löggjöf. Málið er talsvert margbrotið og þarf athugunar. Svo það er ekki víst, að stjórnin verði búin að ljúka því á næsta þingi. Jeg sje því ekki, að neinn skaði sje skeður, þó frv. verði samþykt nú þegar. Mönnum er gefinn 5 ára frestur samkvæmt frumvarpinu þeim sem eiga hjer eignir, sem nefndar eru í frv., til þess að koma málum sínum í rjett horf, og atvinnurjettur þeirra ekki skertur meðan fresturinn er að líða. En hins vegar er líklegt, að atvinnulöggjöfin verði komin eftir 5 ára tíma.

Það kann að vera, að eitthvað hafi gleymst af undantekningum, sem hefði átt að taka með, t. d. embættismenn erlendra ríkja.

En jeg álít, að ekki sje mikill skaði skeður með þessu. Því stjórnin mundi að sjálfsögðu altaf veita útlendingum leyfi til að reisa spítala, kirkjur og annað þess háttar. Hún mundi varla fara að amast við því.

Þar sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að þetta ætti að bíða þangað til löggjöf væri sett um atvinnu manna í sambandi við búsetuskilyrðið, þá kemur það ekki heim við álit stjórnarinnar 1901, þegar hún bar fram frumvarp um takmörkun á yfirráðarjetti á fasteignum Það voru ekki gerðar breytingar á atvinnulöggjöfinni þá. Jeg sje því ekki, að það sje hættulegra nú en þá að setja lagafyrirmæli sjerstaklega um fasteignayfirráðin.