02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

115. mál, hafnargerð í Ólafsvík

Halldór Steinsson:

Það má ekki minna vera en að jeg þakki hv. nefnd og hæstv. atvinnumálaráðherra fyrir undirtektir þessa máls.

Hv. nefnd hefir leitað upplýsinga hjá verkfróðum manni, og hefir hjá honum fengið áætlun um kostnaðinn, sem eins og sjest á nál. mun verða um 700,000 kr. Þetta er að vísu mikil upphæð, en hjer er líka að ræða um stórkostlegan hagnað fyrir þau hjeruð, sem að standa. Það lítur jafnvel svo út, að þessi hjeruð muni leggjast í eyði, ef eigi verði úr þessu bætt. Og virðist þessi upphæð þá ekki stór, því mörg 700 þús. tapast á því, að ekki er hægt vegna hafnleysis að afla fiskjarins, sem altaf er þarna skamt undan landi.

Jeg skal ekki fullyrða um, hve nær verkið komist í framkvæmd, þó að lög þessi verði samþykt, en jeg vona samt, að eitthvert skrið komist á framkvæmdirnar.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) fanst ekki nægileg trygging, að eingöngu eitt fátækt sveitarfjelag ætti hjer hlut að máli, en háttv. frsm. (K. E.) tók fram, að það væri eigi eingöngu þetta sveitarfjelag, sem nyti góðs af höfninni, heldur og öll nærliggjandi hjeruð. En annars hefi jeg ekkert á móti því, að sett sje inn það ákvæði, að sýslunefnd ábyrgist.

Jeg ætla svo að lokum að mæla sem allra best með því, að frv. verði samþykt til 3. umr.