03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárhagsnefndar (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður því jeg hefi að eins það hlutverk að gera grein fyrir brtt., sem fram eru komnar frá fjárhagsnefnd. Fyrsti liðurinn á brtt. á þgskj. 385 á við útflutningsgjaldaliðinn. Það er gert ráð fyrir útflutningsgjaldi af 100,000 tn. af síld, og er þar af hækkun kr. 2.50 af hverri tunnu, og verða það 250,000 kr. Þá má gera ráð fyrir, að útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum nemi 50,000 kr. og af fiski og lýsi 100,000 kr. En þetta gerir til samans 400,000 kr., og að meðtöldu því, sem stjórnin áætlar, 550,000 kr. Þá leyfir nefndin sjer að koma fram með þá brtt. við 11. lið 2. gr. stj.frv., að vínfangatollurinn verði hækkaður um helming (E. A.: Í von um aukinn innflutning). Nei, vegna hækkunar þeirrar á vínfangatollinum, sem samþykt hefir verið á þessu þingi. Breytingin að tóbakstollurinn hækki úr 300,000 kr. upp í 400,000 kr. er gerð í hlutfalli við hækkunina á þeim tolli. Síðasti liðurinn er að hækka önnur aðflutningsgjöld um 10,000 kr., og er þar aðallega um brjóstsykurstollinn að ræða.

Hjer er ekki gert ráð fyrir þeim tekjuaukum, sem eru á leiðinni gegnum hv. þing.

Þau tekjuaukafrv. eru að sönnu ekki há, en þó má gera ráð fyrir, að tekjuaukinn af þeim nemi um 100,000 kr. En þar eð ekki verður sjeð fyrir forlög þeirra, þótti nefndinni ekki fært að taka tillit til þeirra.

Jeg hefi ekki orðið var við, að neinar brtt. hafi komið fram við hina liðina, svo að jeg get látið hjer staðar numið.