25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Matthías Ólafsson:

Jeg þarf ekki miklu að svara undangengnum ræðum, því að í þeim hefir verið gnægð af vindhöggum, en lítið röksemda; get jeg því alveg látið það liggja milli hluta. Jeg mundi jafnt hafa greitt atkvæði gegn 15,000 kr., 10 kr. eða 5 kr. eftirgjöf á láni þessu, því að fyrir mjer er málið „princip“ -mál. Jeg vil ekki, að neinar eftirgjafir, slíkar sem þessar, eigi sjer stað af landssjóðs hálfu, hvort sem þær eru stórar eða smáar. Tillaga hv. þm. Barð. (H. K.) hefir því ekki minstu áhrif á mig. Aðdróttunum hv. þm. (H. K.) til nefndarinnar vísa jeg aftur til hans sjálfs. En má ske sannast hjer hið fornkveðna: „Maður þekkir mann af sjer.“

Jeg vík ekki frá því, að skoðun mín sje rjett í þessu máli, hvernig sem vinur minn, hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) lítur á það. Og enginn má ætla, að jeg greiði atkvæði gegn skoðun minni. Jeg veit annars ekki betur en að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sje yfirleitt á þeirri skoðun, að eigi sje rjett, að landssjóður greiði gjald fyrir glappaskot sveita eða sýslufjelaga, eða vanrækslu þeirra. Þannig mun það hafa verið, þegar heimtað var allmikið fje úr landssjóði til viðgerðar á Ölfusárbrú, sem sýslufjelögin höfðu vanrækt að halda við. (S. St.: Jeg greiddi þó atkvæði með því.) Hvað sem því kann að líða, munum við báðir geta orðið samdóma um, að það sje ósæmilegt betl að leita lána í landssjóð með það á bak við eyrað að losast við að endurgreiða lánið að einhverju eða öllu leyti. Móti slíkum eftirgjöfum mun jeg jafnan verða; það er ekki heiðarlegt að hafa út fje á þann veg; og mjer rennur í skap, þegar jeg verð þess var að slíkt á að leika. Lái mjer það hver sem vill.

Að verkfæri hafi verið keypt, en ekki fengin að láni, breytir engu. Þeir geta eigi hafa fengið þau með öðru móti en að borga fyrir þau.

Þeir, sem yfirleitt geta fengið af sjer að greiða atkv. með því, sem ósanngjarnt er geta greitt atkv. með þessu. En þetta og þvílíkt er á móti mínu skapi, og jeg hygg allra hugsandi manna í landinu. Slíkan hugsunarhátt á ekki að ala upp í fólki.