04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

115. mál, hafnargerð í Ólafsvík

Halldór Steinsson:

Jeg verð að játa það, að í upphafi tók jeg till. hv. þm Ísaf. (M. T.) þannig, að hann vildi með henni tefja fyrir framgangi þessa máls. En nú hefir hann lýst því yfir, að svo sje ekki. Jeg get þess vegna eftir atvikum sætt mig við, að breytingin verði samþykt., ef þessi skilningur er lagður í hana. Jeg held líka, að þó til kastanna kæmi nú á þessu fjárhagstímabili, mundi stjórnin ekki sjá sjer fært að synja um lánið og næsta þing teljast bundið að samþykkja fjárveitinguna, því auðvitað get jeg ekki gengið inn á neitt það, sem tefur málið.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) ljet það í ljós, að undirbúning vantaði. En þetta get jeg ekki kannast við. Hjer hefir verið gerður sami undirbúningur og venjulegt er fyrir hafnargerð, mælingar farið fram, teikning og áætlun um kostnað liggur fyrir.

Að því er umboðsmann snertir, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) talaði um, skal jeg geta þess, að fastur umboðsmaður hefir aðsetur í Snæfellsnessýslu og honum einmitt gert að skyldu að sitja í útsýslunni. Jeg sje þess vegna ekki þörf á því að fara að bæta þar við öðrum eftirlitsmanni.

Annars legg jeg ekki kapp á það, að brtt. verði feld, ef hún hefir engan drátt í för með sjer fyrir málið.