04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

115. mál, hafnargerð í Ólafsvík

Frsm. (Karl Einarsson):

Það er að eins stutt athugasemd. Jeg átti ekki við það, í því sem jeg hefi sagt og skrifað um þetta mál, að það væri illa undirbúið. Jeg vildi að eins benda á, að fullnaðaruppdrættir lægju enn ekki fyrir hreinteiknaðir, og að skýrslan sjálf væri ekki til nema í uppkasti.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að jeg hefði litið svo á, sem brtt. hefði litla þýðingu. Meining mín er sú, að svo framarlega sem stjórnin telur, að ráðast eigi í fyrirtækið, þá hjálpi hún hreppnum til þess að útvega lánið, en að ekki verði neitt borgað úr landssjóði fyr en byrjað er á lagningu hafnarinnar, á fyrsta reikningsári. Þessi regla hefir verið höfð um hinar fyrri hafnargerðir.

Frá þessu sjónarmiði er þess vegna engin ástæða til þess að fella brtt., en það er ekki heldur nein þörf á að samþykkja hana.