18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

130. mál, hafnalög fyrir Vestmannaeyjar

Flm. (Karl Einarsson):

Jeg skal að þessu sinni að eins fara örfáum orðum um þetta frumvarp. Þetta mál lá fyrst fyrir Alþingi 1913, og voru þá allar horfur á, að alt gengi skaplega með framkvæmdir málsins. En af ástæðum, sem hjer þarf ekki að greina — en teknar voru fram á þingi 1915 — var ekki unt að gera samning um alt verkið þá. Það sama ár — 1915 — voru svo veittar 90 þús. kr. til verksins, gegn þreföldu framlagi annarsstaðar frá, og sömuleiðis veitt heimild til þess, að landssjóður ábyrgðist 230 þús. kr. en til fyrirtækisins annarsstaðar frá. Þegar þessi lög voru samþykt, var enn ekki unt að komast að samningum um framkvæmd starfsins. Vinnukaup og efni alt var þá sem sje að hækka í verði svo að segja daglega, og enginn fjekst til að taka verkið að sjer með þeim kjörum, sem sýslunefnd gat boðið. En hins vegar hafði hún ekki heimild til þess að veita til þess ríflegri styrk, og mundi heldur ekki hafa fengið leyfi landsstjórnar til þess. En það hefði verið að renna blint í sjóinn, að sinna nokkru tilboði, eins og þá stóð á, þar sem ekkert tilboð fjekst nema á þeim grundvelli, að það breyttist eftir því, sem kaup og efni hækkaði.

Í vetur voru nokkrar horfur á, að úr þessu öngþveiti rættist, og ljet því bæjarstjórn Vestmannaeyja rannsaka málið alt, og var það falið Kirk verkfræðingi. Enn þá eru einstök atriði áætlunar hans að eins til í uppkasti, en þar er þó skýrt tekið fram, að ekki þurfi að fara fram úr áætlun hans, nema verðlag breytist að mun. Hækkunin, sem samt er gert ráð fyrir, stafar því ekki eingöngu af dýrtíð, heldur líka af því, að nú er gert ráð fyrir því, að garðurinn verði sterkari og stinnari en áður, verði breiðari og hærri. Reynslan hefir sem sje sýnt, að garðarnir voru of veikir, eins og áður var gert ráð fyrir þeim. Öll þessi hækkun nemur um 600 þús. kr., en þar með er þá talin brú ein mikil, sem um leið verður þriðji bylgjubrjóturinn við höfnina.

Jeg vona svo, að hv. deild leyfi þessu máli til 2. umr. og nefndar, og er þá fús til þess að gefa allar þær upplýsingar um það, sem mjer er unt.