02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

130. mál, hafnalög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Karl Einarsson):

Þetta mál hefir komið hjer tvívegis áður, og get jeg að ýmsu leyti vísað til þess, sem þá var sagt.

Í reyndinni hefir það komið í ljós, að áætlunin um hafnarbygginguna var of lág. Garðarnir reyndust of veikir, og skemdust þeir þar sem mestur var sjógangur, og er það fyrst í vetur, að ekkert hefir haggast af því, sem bygt var í fyrra. Það er líka einróma álit bæði verkfræðinga og sjómanna, að ekki megi við það una, sem áður var. Það verður að gera garðana breiðari, hærri og sterkari, og byggja einn aukagarð, til þess að fá ró í höfnina.

Gert er ráð fyrir því, að nú muni hafa verið varið um 200 þús. kr. til hafnargerðarinnar. En aukakostnaðurinn er áætlaður um hálf miljón kr. Þessi hækkun stafar auðvitað af dýrtíðinni, hækkuðum vinnulaunum og auknum efniskostnaði og sömuleiðis af því, að nú er gert ráð fyrir því, að bryggjurnar verði tvær og að stærra svæði verði dýpkað í höfninni. En allar þessar bætur eru bráðnauðsynlegar. Nú er sem sje þannig komið, að ekki er rúm fyrir nokkurn bát um fram þá, sem nú eru til í Eyjum, og getur útgerðin þess vegna ekki aukist, en verður að standa í stað, ef höfnin er ekki stækkuð. En það er augljóst, að slíkt væri tjón, ekki að eins fyrir Eyjarnar, heldur alt landið. því þar eru fiskisælustu miðin, sem hjer er völ á, og veður veiðin þar uppi vetur og sumar, jafnt og stöðugt.

Viðvíkjandi brtt. þeirri, sem fram er komin, skal jeg taka það fram, að hvorki jeg nje bæjarstjórnin höfum neitt við hana að athuga.

Fyrir nefndinni hefir hjer vakað það sama og um hafnargerðina í Ólafsvík, að landsstjórnin samþykti til tryggingar allar áætlanir og nyti þar aðstoðar sjerfróðra manna.

Jeg hefi einmitt í dag átt tal um þetta við aðalmann hafnargerðarinnar í Vestmannaeyjum, og sagði hann að það mundi að eins gleðja sig að fá slíka „kritik“, því altaf gætu einhver atriði verið efa undirorpin, og fengist með þessu frekari trygging fyrir því, að verkið sje vel af hendi leyst.

Kostnaðaratriðið í þessu máli virðist mjer ekki ægilegt. Mjer virðist að hv. þing ætti ekki að horfa í slíkt þjóðþrifa fyrir tæki, þar sem samþyktir hafa verið slíkir útgjaldaaukar, sem raun er á orðin, sem sje 12 milj. kr. til brúabygginga. Það er ekki svo að skilja, að jeg ætli að amast við þessu — það er þarft og sjálfsagt. En benda vil jeg á það í þessu sambandi, að ef bera á saman kostnaðarhliðar þessara tveggja mála, þá er augljóst, að meiri fjárhagslegur gróði er að hafnargerðinni en brúargerðum. Þar að auki er þetta eina höfnin á Suðurlandi, og er það auðsjeður stór kostur, að hægt sje að skipa vörum þar upp og flytja þær síðan á smærri skipum á aðrar hafnir sunnanlands. En auk þess er þetta lífsnauðsyn fyrir sjávarútveg Eyjanna.

Vona jeg að lokum, að hv. deild beri gæfu til að leiða mál þetta til farsælla lykta.