18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

118. mál, eftirlits- og fóðurbirgðarfélag

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vil að eins segja örfá orð út af athugasemd hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) um 2 málsgrein 2. gr., sem mjer skildist hann telja varhugaverða. En jeg hefi einmitt sjálfur verið að velta fyrir mjer orðalagi þessarar greinar, og helst komist að þeirri niðurstöðu, að sleppa ætti orðunum: „eiga eða“. Þetta er sem sje svo undur teygjanlegt orð. Það er t. d. algengt, að menn eigi örfáar kindur á fóðrum hjá öðrum, og mundi þetta orð því einnig verða látið ná til slíkra manna — en þeir eiga að mínu viti ekki að hafa atkvæðisrjett. Aðalatriðið í þessu máli er, að hlutaðeigandi hafi fje á fóðrum — hver svo sem eigandinn er talinn — og við þetta ætti að miða atkvæðisrjettinn, og við þetta eitt, en ekki við kosningarrjett til þings eða sveitarstjórna.

Jeg vil þess vegna leyfa mjer að skjóta því til hv. nefndar, að hún felli úr 2. gr. orðin „eiga eða“.