06.09.1919
Neðri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

144. mál, þingfararkaup alþingismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er rjett, sem hv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að frv. þetta er komið fram eftir tilmælum stjórnarinnar. Þegar það virðist orðið viðurkent, að kaup starfsmanna ríkisins sje yfirleitt orðið of lágt, þá sá stjórnin ekki betur en að hið sama hlyti og að ná til alþingismanna; og það ætti að vera óhætt að gæta sanngirni gagnvart þeim, eigi síður en gagnvart öðrum. Þess ber og að gæta, að þessir þingmenn eru ekki að vinna fyrir sjálfa sig, því að kjörtímabil þeirra er þegar á enda.

Jeg trúi því ekki, að það geti sætt mótmælum, að þingmennirnir fái dýrtíðaruppbót, eins og aðrir opinberir starfsmenn. Þá sýnist dagpeningar þingmanna, eins og nú er tímum háttað, ekki mega vera lægri en 12 kr.; jeg hefði heldur kosið, að þeir hefðu verið dálítið hærri. Það virðist óviðurkvæmilegt, að þingmenn fái ekki eins hátt dagkaup eins og ýmsir verkamenn, þeir sem fyrir verkum standa. Annaðhvort er að borga þingmönnum svo, að þeir geti að jafnaði verið skaðlausir af þingsetunni, eða þá að ákveða, að þeir sitji kauplaust á þingi.