17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

144. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eggert Pálsson:

Jeg ætla að eins að segja fá orð út af brtt. þeim á þgskj 848, sem jeg hefi leyft mjer að flytja ásamt þremur öðrum hv. þm. Þar er þóknunin til þm. látin haldast, eins og hún er nú. En samt sem áður yrði að þessu mikil bót frá því, sem nú er, þegar dýrtíðaruppbótin bætist við. En það, sem jeg legg þó aðaláhersluna á, er það, að brtt. jafnar það misrjetti, sem samkvæmt frv. mundi verða á þóknun þeirra þm., sem nú sitja á þingi, og hinna, sem koma næst. Nú mundu innan- og utanbæjarþingmenn fá alt í alt hlutfallslega 16 og 20 kr., en þeir, sem næst koma, mundu fá 24 kr. Þetta finst mjer ójafnt skift, því sennilega verður ekki svo miklu erfiðara að lifa hjer í framtíðinni en nú.

Annars er óþarft að ræða þetta meira. Allir ættu að sjá, að hjer er ekki farið fram á nema það, sem sanngjarnt er. Legg jeg það svo á vald hv. deildar, hvað hún gerir við málið.