17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

144. mál, þingfararkaup alþingismanna

Guðmundur Ólafsson:

Jeg tek til máls af því, að mjer þótti hv. meðflutningsmaður minn (E. P.) að brtt. á þgskj. 848 ekki tala um þetta mál beint eftir minni skoðun. Hann sagði, að fyrri till. væri okkur flm. ekkert kappsmál, en sú till. er mjer einmitt mesta kappsmálið. Hún er mjer svo mikið kappsmál, að ef hún verður feld, þá mun jeg greiða atkv. á móti síðari till Það er skoðun mín, að þm. sjeu vel sæmdir af því kaupi, sem ákveðið er í fyrri brtt., þegar við bætist dýrtíðaruppbótin. Okkur þótti, mörgum hverjum, fulllangt gengið um laun embættismanna, og jeg áliti það illa farið, ef við kórónuðum alt launabrask þessa þings með því að hækka laun okkar sjálfra upp úr öllu valdi.