05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

141. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg gat þess við 1. umr., að jeg ljeti bíða að segja nokkuð um þetta mál til þessarar umr.

Það er öllum hv. þm. kunnugt, að laun yfirsetukvenna eru mjög bágborin, eins og nú standa sakir.

Og flestir munu hafa orðið varir við það, og þá ekki síst læknarnir, á þann hátt, hvað erfitt er orðið að fá yfirsetukonur.

Víða er nú svo ástatt, að þær vantar, og mun það sjerstaklega koma af því, að launin eru svo lág, að hægt er fyrir alt starfhæft kvenfólk að hafa meira fyrir hverja almenna atvinnu.

Það kemur því öllum saman um, að nauðsyn sje á að bæta kjör þessara kvenna.

Læknafundurinn hafði þetta mál til athugunar, og samkvæmt óskum hins nýstofnaða yfirsetukvennafjelags fjelst hann á að mæla með því, að Alþingi yrði að nokkru við beiðni þeirra.

En þá er hitt, ef þingið vill á annað borð bæta kjör þeirra, þá verður það að vera að miklum mun, og eftir núverandi fyrirkomulagi mundi það verða mikill útgjaldaauki fyrir sýslusjóði, ef þeir eiga einir að borga. Það mundi meira að segja nema svo miklu sumsstaðar, að þessi viðbót gæti orðið eins há og öll önnur sýslusjóðsgjöld. Þau eru ekki hærri en það sumsstaðar.

Þetta fanst læknafundinum og launanefndinni ekki vinnandi vegur, að íþyngja svo sýslusjóðunum, þar sem ekki er svo auðvelt fyrir þá að ná inn tekjum sínum.

En menn líta á þetta á tvo vegu. Vilja sumir greiða laun þessi að öllu leyti úr ríkissjóði, og rökstyðja þá skoðun með því, að bera megi þetta saman við lækna, þar sem hjer sje um skylt mál að ræða.

En móti því mælir það, að sýslunefndir ráða því, hve mörg umdæmi eru í sýslu hverri: því er hættan á, ef sýslusjóðir losna með öllu við kostnaðinn, að þá mundi umdæmunum fjölgað úr hófi fram.

Af þeim orsökum er það, að launanefndin leggur til, að hjer sje farin miðlunarleið, þannig að ríkissjóður greiði helming launanna, en sýslusjóðir hinn helminginn.

Þetta er 1. breytingin á frv. Og þetta ætti að vera nægur hemill á því, að sýslunefndir fjölgi um of umdæmunum, þar sem þetta mun hafa aukin gjöld í för með sjer fyrir sýslusjóði, að minsta kosti þar, sem yfirsetukonum hefir engin dýrtíðaruppbót verið veitt.

Þetta er stórvægilegasta breytingin, því að hún er stefnubreyting.

Næst er breytingin á upphæðunum.

Núverandi launakjör eru þannig, að lægst laun eru 70 kr. á ári, þar sem 300 íbúar eru í umdæmi eða færri. Síðan eru launin 70 kr., að viðbættum 5 kr. fyrir hverja 50 menn fram yfir 300, þó svo, að þau fari aldrei fram úr 500 kr.

Nú vill nefndin breyta þessu svo, að lágmarkslaun sjeu 250 kr., sem hækki um 10 kr. fyrir hverja 50 manns fram yfir 300 manns í umdæmi, þó svo, að ekki fari launin fram úr 1000 kr.

Þetta varð að samkomulagi, að bera skyldi fram fyrir nefndarinnar hönd, en jeg skal geta þess strax, að nefndarmenn gátu ekki orðið fyllilega sammála um hámarksákvæðið sjerstaklega.

Jeg þóttist þess þó fullviss, að enginn mundi gera þetta að kappsmáli.

Þá er enn eitt ákvæði, sem ekki er til í núgildandi lögum. Það er ákvæðið í síðustu málsgrein 1. gr., um að launin geti farið hækkandi 5. hvert ár um 50 kr., uns þau eftir 10 ár, hafa hækkað um 100 kr.

Þetta tel jeg mjög áríðandi ákvæði, einmitt vegna þess, hve stopular yfirsetukonur eru í embættum sínum, hverfa oft frá störfum eftir 1–2 ár.

En þetta ákvæði ætti að verða til þess, að þær yndu betur hag sínum, þegar þær eiga von um hækkun.

Þá er að geta þess, að í 3. gr. frv. er gerð breyting á borgun fyrir aukaverk. Borgunin fyrir yfirsetustarfið sjálft er ákveðin 7 kr., í staðinn fyrir 5 kr.

En það, sem sjerstaklega er hækkað í þessari grein, er borgunin fyrir hvern dag, sem yfirsetukona dvelur hjá sængurkonu. Var hún áður 1 kr., en er hjer ákveðin 2.50 kr. Fyrir kaupstaðarljósmæður er vitjunargjaldið hækkað um helming, úr 50 aur. upp í eina kr.

Jeg skal geta þess, að þetta fjelag íslenskra ljósmæðra sendi Alþingi áskorun um að bæta kjörin. Var þar farið fram á, að lágmark launanna yrði 300 kr., en hámarkið 1200 kr., en hækkun fyrir aukaverk sú, að 10 kr. yrðu fyrir að sitja yfir og 3 kr. fyrir hvern dag.

En nefndin sá sjer ekki fært að verða algerlega við þessum kröfum. En hins vegar vonar hún, að þó ekki sje farið lengra en hjer er gert, þá megi það verða til þess, að ekki verði framvegis svo mikill skortur á ljósmæðrum, sem nú er, og er enda útlit fyrir, að hann fari vaxandi, ef ekki er að gert, þar sem margar þeirra, sem nú gegna störfum, gera það einmitt í von um, að kjörin verði bætt.

Er það líka eðlilegt, því að eftir kvenfólkskaupi nú tekur það ekki langan tíma að vinna fyrir ámóta fje og þær hafa að launum.

Jeg legg því mikla áherslu á, að frv. þetta nái fram að ganga, þar sem það er einn af stærri liðum heilbrigðismálanna að hafa nógu margar og góðar yfirsetukonur.

Það má ganga að því vísu, að það er eitt af ráðunum til að minka barnadauða og sjá um það, að sem best verði undirbúin heilsa barnanna.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, meðan enginn hreyfir mótmælum.

Jeg veit, að hjer eru menn, sem þykir nefndin ekki hafa gengið nógu langt, og getur það verið rjett á litið.

En nefndin bjóst ekki við, að þýða mundi að ganga lengra, og þetta verður líka að telja allmikla bót frá því, sem verið hefir.