05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

141. mál, yfirsetukvennalög

Einar Jónsson:

Það er víst síst að mínu skapi að vera því mótfallinn, að bætt verði launakjör kvenna, ef það gengur fram, sem væntanlegt er, að launakjör karlmanna verði bætt að svo miklum mun, sem nú er í ráði.

En það er annað í þessu máli, sem jeg tel varhugavert. Það er útgjaldaaukinn á sýslusjóðunum, sem munu flestir hafa meira en nóg á sinni könnu, og gott ef þeim reynist ekki um megn að greiða alla sína skylduskatta sumum hverjum, ef ekki öllum.

En það sýnir sig sjálft, að þessi auknu útgjöld lenda meira á sýslusjóðum en á ríkissjóði, að tiltölu, ef þetta frv. nær samþykki hv. deildar.

Að öðru leyti er þessu þann veg háttað, að mjer er alls ekki kunnugt um það, að til sveita ríki nein óánægja meðal yfirsetukvenna út af launum þeirra, og síðan þau nýskeð voru hækkuð álít jeg, að þær sjeu fullsæmdar af þeim.

En hins vegar mundi jeg ekki hafa neitt á móti brtt. við 7. gr. frv. Það ákvæði mætti gjarnan gilda um allar yfirsetukonur jafnt.

En að öðru leyti tel jeg ekki þörf að lækka laun þeirra nema í kaupstöðum. Þær þyrftu að fá uppbót á launum sínum. Alt öðru máli er að gegna um þær, sem eru í sveit. Þær hafa flestar bústjórn sinna heimila á hendi og geta gegnt sínum daglegu störfum, nema þá fáa daga, sem þær eru sóttar, og eru þá fluttar bæði að heiman og heim og fæddar allan tímann, sem þær eru burtu.

Það er því ólíku saman að jafna. Í kaupstöðunum verða þær að kosta sig sjálfar að öllu leyti; að minsta kosti veit jeg ekki til, að þær sjeu fæddar fyrir ekki neitt, þótt þær dvelji lengi hjá sængurkonum.

Auk þess væri það, að gera hjer upp á milli, í samræmi við þeirra hugsun, sem vilja láta þá embættismenn, sem í sveit búa, sæta lakari launakjörum en hina, sem búsettir eru í kaupstað, hvort sem það er nú rjett eða ekki.

Svo mikið er að minsta kosti víst, að þeim, sem hlut eiga að máli, finst það ekki rjett, þótt það sje talið fult rjettlæti hjer.

Þá mintist háttv. frsm. (M P.) á það, að mikill skortur væri á yfirsetukonum í ýmsum hjeruðum, og hætta væri, að þær hyrfu fleiri frá starfinu, nema ef bætt væru kjörin.

Til þessa þekki jeg ekki, nema ef vera skyldi það, að ógiftar yfirsetukonur hverfi frá starfinu vegna þess að þær giftast og flytjast þá ef til vill hjeraða milli.

En jeg býst nú við, að þær gifti sig eftir sem áður, þó að launin hækki, því að naumast verður sú hækkun svo rífleg, að þær vilji við það una að sitja af sjer góðan mann vegna hennar.

Jeg hygg því, að rjettlátast væri að fara fram á launahækkun í kaupstöðum, en láta við sama sitja til sveita.

Eins og kunnugt er, eru launin nú 70 kr., og 5 kr. aukatekjur fyrir hverja barnsfæðingu, þar sem ekki eru fleiri en 300 manns í umdæmi, en þar sem fleira er fólkið eru launin líka 70 kr. að viðbættum 5 kr. fyrir hverja 50 manns, sem fram yfir eru 300, og aukatekjurnar auðvitað hinar sömu. Nú tel jeg víst, að í fáum sveitahjeruðum eyði yfirsetukonan meiru en 5–10 dögum á ári frá heimili sínu vegna þessa starfs. Segjum 10 dagar, kr. 70.00+50.00 = kr. 120.00. Það er kr. 12.00 pr. dag. — Hærra en kaup þingmanna, sem kosta sig sjálfir.

Þetta virðist mjer fullsæmilegt fyrir þær, sem geta haft sín heimilisstörf á hendi jafnframt, og þar, sem jeg þekki til, munu þær halda þessu starfi framvegis þó að engin breyting verði gerð.

En eins og jeg hefi tekið fram, er jeg ekki á móti því, að samþ. verði brtt. við 7. gr. og látin gilda fyrir allar jafnt.