17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

141. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Halldór Steinsson):

Frv. fer fram á að hækka laun yfirsetukvenna. Eftir núgildandi lögum eru laun þeirra 70 kr. á ári. — Sjá allir, að þetta er ósæmileg borgun, og langtum minni en nokkurri vinnukonu er boðið nú orðið; enda er afleiðingin augljós. Síðustu árin hefir verið hreinasta ekla á yfirsetukonum. Í flestöllum læknishjeruðum landsins hefir verið kvartað undan skorti á yfirsetukonum, og kveður svo ramt að því, að mjer er sagt, að í einu læknishjeraði landsins sje að eins ein einasta yfirsetukona. Er öllum augljóst, að þetta ástand getur ekki gengið til lengdar; og eini vegurinn til að bæta úr því er að bæta kjör yfirsetukvenna.

Að vísu hefir yfirsetukvennaskólinn verið vel sóttur undanfarið, en langt frá því allar, sem hafa sótt hann, hafa tekið sjer stöðu sem yfirsetukonur, af því að þær hafa ekki viljað vinna fyrir smánarlaun, enda getað fengið langtum betri kjör við önnur störf. — Þó yfirsetukonur geti haft mörg önnur störf á hendi. er samt ómögulegt að neita, að þær sjeu mjög bundnar og staða þeirra ófrjáls, því altaf þurfa þær að vera til taks, hvort heldur er á nóttu eða degi.

Frv. fer fram á, að launin verði hækkuð upp í 200 kr., þar sem hjeraðsbúar ekki eru fleiri en 300, en svo fái þær 10 kr. fyrir hverja 50 íbúa, sem eru fram yfir 300. Einnig er ætlast til, að launin hækki fimta hvert ár um 25 kr., þó svo, að launahækkunin nemi aldrei meiru en 75 kr. — Með því móti komast launin í lægsta flokkinum aldrei yfir 275 kr., og virðist tæplega vera sæmandi að bjóða minni laun. — Einnig er sú breyting gerð á eldri lögunum, að yfirsetukonan skal hafa 7 kr. fyrir yfirsetuna, í stað 5 kr. áður, og 2.50 kr. í dagpeninga, í staðinn fyrir 1 kr.

Mál þetta var í samvinnunefnd launamála, og var tillaga nefndarinnar betri í garð yfirsetukvenna, en frv., eins og það nú liggur fyrir. Eftir tillögum nefndarinnar áttu byrjunarlaunin að vera 250 kr., en hv. Nd. þóknaðist ekki að ganga inn á þá braut. Nefndin hjer í hv. deild áleit sjer ekki fært að koma með aðra brtt. en þá, sem er á þgskj. 852, um að helmingur launanna skuli goldinn úr ríkissjóði, í stað þess að frv. fer fram á, að 1/3 sje goldinn úr ríkisssjóði og 2/3 úr sýslusjóði. Ástæðan til þess, að nefndin fór þessa leið er sú sama sem lá til grundvallar fyrir brtt. nefndarinnar um laun kennara.

Á síðustu árum hefir altaf verið hlaðið meiri og meiri gjöldum á sveitar- og sýslusjóði, án þess að tekjustofnar þeirra yrðu auknir, og fanst nefndinni því eigi ástæða til að íþyngja þeim meira en að þeir bæru helming af kostnaðinum.

Jeg skal svo eigi fara fleiri orðum um þetta, en jeg vona, að hv. deildarmenn sjái, að þetta er sanngjörn krafa, og greiði atkvæði samkvæmt því.