14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

17. mál, bráðabirgðainnflutningsgjald af síldartunnum og efni í þær

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Eins og nefndarálitið á þgskj. 60 ber með sjer, leggur fjárhagsnefnd það til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.

Það er töluvert annað, sem liggur að baki þessu frv., heldur en öðrum tekjuaukafrv., sem sje það, að þegar bráðabirgðalög þau, sem hjer er farið fram á að Alþingi samþykki, voru gefin út, voru hjer á landi birgðir allmiklar af síldartunnum frá fyrra ári. Þessar tunnur voru í svo háu verði, að hægur leikur er að flytja nú inn tunnur, sem verða ódýrari, og standa því þeir, sem nú kaupa tunnur, mun betur að vígi heldur en þeir, sem tunnur eiga frá því í fyrra. Það er því ekki nema rjettlátt og nauðsynlegt að leggja toll á þær tunnur, sem inn verða fluttar, til þess að jafnvægið raskist ekki um of. Og jeg fæ heldur ekki skilið annað en að Norðmenn. Svíar og aðrir útlendingar hljóti að skilja, hvernig á þessum skatti stendur. enda hvílir þessi skattur einnig á þeim Íslendingum, sem flytja inn síldartunnur á þessu ári. Það hefir heyrst að vísu, að útlendingar hafi í hyggju að salta síld sína utan landhelgi og það er ekki laust við, að farið sje að bóla á því en jeg fæ ekki skilið, hvernig það getur orðið alment, því það hlýtur að hafa mikinn kostnað og óþægindi í för með sjer. Það leiðir af sjálfu sjer, að það verður að ganga ríkt eftir, að þessi tollur verði greiddur. því þá getur orðið talsverður tekjuauki að honum, þó ekki svo gott að ætla á, hversu mikill hann verði.

Jeg sje ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þetta frv. Nefndin álítur að rjettast sje að samþ. það breytingalaust, enda er erfitt að fara nú að breyta því, þar eð farið er að framkvæma lögin eins og stjórnin gerði þau úr garði.