17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

154. mál, ullarmat

Kristinn Daníelsson:

Jeg verð að halda því fram, að ef laun ráðherranna verða ekki hækkuð, þá kemur beinlínis fram ójöfnuður í samanburði við laun annara starfsmanna. Jeg vil og í þessa sambandi benda á það, að launanefndin í Nd. hefir aðhylst það að færa hámark launa og dýrtíðaruppbótar hæstarjettardómara upp í 10,500 kr. Í nágrannalöndum vorum munu ráðherralaun vera hærri en hæstarjettardómara. Í Danmörku eru ráðherralaun nú 18,000 kr., en hæstarjettarforstjóri hefir 15,000 kr. og hæstarjettardómarar 12,000 kr.

Að öðru leyti er jeg samdóma hv. 1. þm. Rang. (E. P.) um það, að hækkun launanna muni lítil áhrif hafa á eftirlaunaspurninguna. En ef hæstarjettardómarar, jafnvel að áliti sumra, njóta ekki fylsta rjettar, eftir því sem launum þeirra er nú komið, þá er þó ekki síður vandgert við ráðherrana. Staða þeirra er veglegasta staða í landinu, svo að gera verður til þeirra á þann hátt, að þeir geti haldið sig nokkurn veginn sæmilega, svo að þeir sjeu bæði innlendum og útlendum verðugur spegill þess besta í þjóðinni.

Jeg játa það með hv. 1. þm. Rang. (E. P.), að hjer er ekki um neitt kappsmál að ræða. En hv. þm. hefir nú gefist kostur á að athuga frv. nánara en gert var við 2. umr. málsins.