22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

154. mál, ullarmat

Frsm. (Jón Jónsson):

Frv. þetta er komið frá hv. launanefnd í Ed. Jeg skal geta þess, að á þetta mál var minst í samvinnunefnd launamálsins, en það þótti ekki hlýða að taka laun þessi upp í launalögin. Varð það því að ráði að hækka ráðherralaunin með sjerstökum lögum, eins og nú hefir gert verið af hv. launamálanefnd í Ed.

Lagði hún fyrst til, að hækka launin upp í 10,000 kr. á ári, en sú breyting varð á við meðferð málsins, að hækka skyldi launin upp í 12,000 kr.

En nefndin hjer í Nd. vill ekki fallast á það og flytur því nú brtt. um, að færa launin aftur niður í 10,000, og er sú brtt. í samræmi við brtt. á þgskj. 886, frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.).

Jeg skal geta þess, að þótt segja megi, að hjer sje varlega í sakirnar farið, þá er það að athuga, að ráðherrar eru þingmenn um leið og taka laun þar. Þeir þurfa því engu að kosta til þingmensku sinnar. En þingpeningar þeirra eru nokkurskonar aukatekjur, og þar sem þeir hafa nú verið hækkaðir að nokkru, þá aukast einnig þær tekjur þeirra.

Og ef þing stendur nú, sem gera má ráð fyrir, alloftast í 2½ mánuð, þá nemur fje þetta 1500 kr. á ári.

Þessi hækkun, úr 8000 upp í 10000 kr., gerir því það að verkum, að ráðherrar hafa hærri laun en allir aðrir embættismenn landsins.

Sömuleiðis hefir nefndin talið rjett, að risnufje forsætisráðherra sje fastákveðið 4000 kr. á ári, og vona jeg, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) geti fallist á það, þótt hann hafi flutt brtt. um, að fje þetta skuli greiða eftir reikningi, alt að 4000 kr. á ári.

Nefndinni fanst það óþarfi að gera ráðherranum að skyldu að halda reikninga yfir þetta, og hins vegar óþarft, þar sem telja má, að hjer sje ekki of freklega farið í sakirnar.

Annars er þetta ekkert stóratriði, og vildi jeg skjóta því að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), hvort hann gæti ekki fallist á till. nefndarinnar um þetta atriði.

Þá er önnur breyting, sem nefndin vill gera, sú, að launaákvæði þessi gildi frá 1. júlí 1919.

Þótti það sanngjarnast, þar sem aðrir embættismenn fá launauppbót sína greidda eftir launalögunum frá þeim tíma. Og þetta hjer verður nokkurskonar dýrtíðaruppbót.

Brtt. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) við fyrirsögn frv. tel jeg vera til bóta, því að hún styttir orðalagið, og fer betur á því.

Skal jeg svo ekki fjölyrða, en vona, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.