03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

135. mál, húsagerð ríkisins

Bjarni Jónsson:

Jeg get nú sparað mjer ýmislegt af því, sem jeg ætlaði að segja, af því að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir drepið á ýmislegt af því.

Jeg vildi þó nefna það, að fjármálastefna sumra hv. manna hjer er varla á vetur setjandi. Er það sú stefna, að vinna alt með fjárlagaveitingum. Jeg veit ekki hvaða land í víðri veröld fer svo að við þau stórvirki, er það lætur gera. Eða hvað myndu menn segja um það, ef hv. l. þm. Árn. (S. S.) gerði það til þóknunar yfirlýstum vilja kjósenda sinna í Árnessýslu að skora á Alþingi að veita 3 miljónir króna til járnbrautar austur að Þjórsá og þá miljón kr. til áveitu á Flóann, en skoraði um leið á þing og stjórn að spara landsfje, svo sem gert var á þingmálafundi í Árnessýslu? En það ár hafði landssjóður tekjur, sem fóru ekki fram úr tveimur miljónum! Svo heimtar hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að þessar framkvæmdir standi á fjárlögunum! Er þá augljóst, að hjer þarf til alveg sjerstaka fjármálaspeki til þess að gera fjárlögin úr garði, að hlýtt sje því boðorði sparnaðarins, að fá tekjuafgang!

En annars hygg jeg það flestum auðskilið, alveg spauglaust, að oft eru lagðar svo miklar upphæðir í nauðsynjafyrirtæki ríkisins, stórhýsi, stórbrýr o. fl., að þær er enginn vegur að leggja á menn á 1–2 fjárhagstímabilum. Eins og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) tók fram, yrðu það gersamlega óhæfileg gjöld á landsmönnum.

Það er algeng og viðurkend regla um allan heim að taka lán til slíkra hluta. Jeg vænti þess, að menn þekki veðdeildarlán, er einstakir menn fá til þess að hagræða fjemunum sínum, á sama hátt og ríkið vill nú. Útlátin verða með því heldur lítil, er menn borga lánið á 30–40 árum, og árlega miklu minni en þau yrðu með því að greiða alt á 3–4 árum. Það er því svo langt frá því, að þetta sje hætta, að það er einmitt sá eini færi vegur, ekki að eins Íslendingum, heldur í öllum ríkjum, hver sem eru.

Jeg skil því ekki þessi mótmæli, er fram hafa komið.

Hitt er rjett, að í lög þessi vantar ýms þau hús, er gera þarf í næstu framtíð. T. d. liggur fyrir að reisa háskólanum sæmilegt hús. Þá liggur og fyrir að reisa hús fyrir símastöðina og banka landsins, sem er húsviltur, síðan seld var tóft hans. Þarf ekki annað en lengja hana og byggja ofan á.

Fleira mætti nefna af stórhýsum, en jeg skal ekki þreyta menn á að telja það nú.

Þótt þegar hafi verið hrakin orð hv. 1. þm. Árn. (S. S.) um landsspítalann, vil jeg þó geta þess, að mörgum landsmanna mun virðast svo, sem heilvita sjúklingar hafi einnig nokkrar kröfur til landssjóðs um heilsubót, og geti komið til greina gagnvart þeim, er því óláni hafa mætt, að sloknað hefir ljós skynseminnar, þótt auðvitað sje sjálfsagt að fara vel með þá, hvort sem er á Kleppi eða annarsstaðar. En það er ekki álit allra, að þeir eigi að ganga fyrir öllum. Mæli jeg þetta til þess að sýna sem snöggvast, hver fásinna væri að reisa þetta hvorttveggja með fjárlagaveitingu. ½ milj. kr. kostar viðgerðin á Kleppi, en landsspítalinn 2 miljónir að minsta kosti. Ætti þá að veita 2½ milj. á einu fjárhagstímabili til húsagerða einna saman. Yrði þá að skattleggja atvinnuvegina, og myndi þá þykja taka í hraukana að greiða þá skatta, sem þyrfti til þess, að þar stæðist á strokkurinn og mjaltirnar, tekjurnar og gjöldin.

Annars eru slík landssjúkrahús nú á dögum orðin heilt húsaþorp. Hefi jeg eigi sjeð nema eitt slíkt sjúkrahús. Er það í Noregi, í Osló, í Ullevollen. Eru það alls 10–20 hús, hvert fyrir sýna tegund sjúkdóma, og eitt fyrir sjerstaklega næma sjúkdóma. Götur eru þar milli húsa eins og í þorpum. Þetta er sjálfsögð nauðsyn að fá hjer á landi. Og eigi síður hjer en þar er það sá eini vegur til að gera slík mannvirki, að taka lán.

Svo er það eitt viðvíkjandi lántökunni, sem menn virðast ekki hafa ljósan skilning á, og það er, að ef ríki sendir menn til annars ríkis til þess að biðja um eina milj. kr. lán, þá mega þeir hugsa, sem vanir eru að veita stór lán: Hvílíkir kotkarlar eru menn þessir, er þeir láta sjer svo lítið nægja? Það er enginn vafi á því, að betur mun ganga lánaleitunin erlendis, ef lánunum, svo sem lánum til brúagerða, húsagerða o. fl., væri öllum slegið saman í eitt stórt lán, og kjörin yrðu að sjálfsögðu betri. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg hafi á móti því að taka lán innanlands. Það er sjálfsagt fyrir hverja þjóð að gera það, sem getur. Það er rjett, sem einn hv. þm. var að hvísla að mjer áðan. Hann sagði, að það væri líkast, ef ríki færi að biðja um 1 miljón kr. lán, og jeg kæmi til kunningja míns og bæði hann að lána mjer 10 kr. fyrir einni pöddu til að hressa mig á.

Mig undrar mjög mikið, að nokkur mótmæli skuli koma gegn frv. þessu. Sjerstaklega undrar mig þó, hvernig þau voru. Menn vilja, að allar fjárveitingar til framfara í landinu sjeu teknar upp í fjárlögin. Jeg ætla, að svefnleysi og þreyta hafi þjakað þm., og þeir skilji nú að nokkru ástand veslings hásetanna á botnvörpungunum, Og eigi kæmi mjer á óvart, að fram kæmi tillaga frá þingmönnum þessarar deildar um 6 stunda svefn handa sjálfum sjer.