03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

135. mál, húsagerð ríkisins

Pjetur Jónsson:

Jeg ætlaði að eins að gera örstutta athugasemd. Jeg vil benda á, að til eru lög um byggingarsjóð opinberra bygginga. Sjóður þessi var upphaflega stofnaður fyrir andvirði þess, sem selt hefir verið af Arnarhólstúninu og öðrum landseignum hjer í grendinni. Enn er mikil eign í því, sem eftir er óselt af Arnarhólstúni, og mun það sumt verða haft fyrir opinberar byggingar, en einnig talsvert til sölu. Jeg bendi að eins á þetta, til að sýna, að byggingarsjóður þessi á raunar talsverðar eignir, og þá er í fullu samræmi að hafa hjer þessi sjerstöku ákvæði um lánveitingar til opinberra bygginga.