03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

135. mál, húsagerð ríkisins

Magnús Pjetursson:

Jeg stóð upp vegna misskilnings, sem kom fram hjá hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Hann taldi landið reisa sjer hurðarás um öxl með þeim framkvæmdum, sem það ætlar nú að ráðast í. Jeg ætla að benda honum á, að þær till., sem nú er komið með, fara ekki fram á meiri framkvæmdir en áður hafa verið. Fjárhæðirnar eru að vísu hærri, en framkvæmdirnar ekki, og þar af leiðandi heimta þær ekki meiri vinnukraft en áður hefir verið.

Tveir hv. þm. hafa talað á móti þessu frv., en hafa sameinast í því einu, að vera á móti því. Annar hefir talið byggingarnar, sem nefndar eru í frv., of fáar, hinn of margar. Jeg sje ekki annað en báðir geti þeir orðið með frv. til 3. umr., og komið þá með brtt. annar um að bæta við byggingum, hinn um að taka byggingar út af frv.

Annars má benda á það, að lítill skaði er skeður, þó húsin sjeu ekki talin fleiri. Má í því sambandi benda á símalögin. Þar voru að eins nauðsynlegustu línurnar ákveðnar fyrst, en síðan hefir á hverju ári verið bætt við, og eins mætti gera í þessu tilfelli. Jeg held því ekki, að sú ástæða, að húsin sjeu of fá, geti orðið eða eigi að verða frv. að falli.

Viðvíkjandi hinni mótbárunni er það að segja, að öll þessi hús eru bráðnauðsynleg, og verður ekki hjá þeim komist. Þetta hefir verið sýnt svo rækilega, að jeg ætla þar ekki að bæta við. Þó má geta þess, að búið er að veita til Hvanneyrarhússins, og verður það fje að engu ef ekki er við bætt.

Um viðbótarbygginguna á Kleppi virðist einnig öllum koma saman. Allir eru því á, að byggja verði að minsta kosti á mesta fjárhagstímabili þetta tvent. Ef þetta frv. því verður felt, verður það að skoðast sem skipun til fjárveitinganefndar um að taka upp í fjárlögin um 600 þús. kr. til þessara bygginga.