03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Jeg hefi ekki undanfarið haft tíma til að undirbúa mig undir framsöguræðuna, því að það hefir verið unnið af svo miklu kappi, að sumir þm. hafa ekki einu sinni getað haft „8 tíma óslitinn“ svefn. Jeg vona, að hv. þm. hafi lesið nefndarálitið, svo að jeg þurfi ekki að fara mörgum orðum um brtt. En ef jeg skyldi ekki færa nægilega ljósar ástæður fyrir brtt., þá vona jeg, að hv. þm. komi með fyrirspurnir til mín um það, sem þeir vilja vita, og mun jeg þá svara þeim.

Áður en jeg fer að tala um brtt. vil jeg fara nokkrum orðum um starf nefndarinnar yfir höfuð og stefnur. Eins og hv. deildarmenn munu sjá, þá kemur þetta frv. síðar fyrir hv. deild heldur en vanalega. Það er þó ekki svo að skilja, að nefndin hafi ekki unnið af kappi, því það hefir hún gert. En auk þess, sem um er getið í nál., þá má benda á það, að fjárveitinganefnd gat ekki byrjað að halda fundi fyr en 7. júlí; tafðist hún þannig í 5 daga að minsta kosti, vegna þess að nokkra þingmenn vantaði til þings.

Þegar hv. frsm. fjárhagsnefndar (M. G.) gerði grein fyrir fjárhagnum hjer á dögunum, mátti sjá, að hv. þm. brá í brún og þótti allískyggilegt útlitið. Og ekki er því að neita, að æskilegra hefði verið, að betri væri fjárhagurinn. Mætti nú ætla, að fjárveitinganefnd ætti sök á þessu, og hefði hún sýnt örlæti um efni fram í sínum till., en er hv. þm. hafa athugað till. nefndarinnar, þá hygg jeg, að þeir sýni með atkvæði sínu, að þeim þyki stefna nefndarinnar rjett og sjálfsögð. Það eru auðvitað altaf einhverjar smátill., er þykja óþarfar, og getur menn lengi greint á um slíkt. Geta þær auðvitað altaf numið nokkrum upphæðum, en aldrei svo, að nokkru næmi fyrir fjárhag landsins í stórum dráttum. Þótt mönnum kynni nú að virðast útgjöldin mikil, þá mega menn þó ekki segja það út í loftið, heldur verða þeir að miða við eitthvað, hafa einhvern samanburð, til sönnunar því áliti. Ef fara á út í þesskonar samanburð, getur naumast verið um að tala samanburð við síðastliðin ár, stríðsárin. Gjaldahlið fjárl. hefir þau ár verið með alt of lágum — óeðlilega lágum — tölum, vegna þess, að nauðsynlegar framkvæmdir hafa verið heftar, en slíkt hefir að eins og altaf verið talið örþrifaráð, og enginn, hvorki þjóð nje þing, hefir búist við, að slíkum örþrifaráðum yrði beitt um ófyrirsjáanlegan tíma. Ef hv. þm. því vilja bera þetta saman við eitthvað, verða þeir að leita lengra aftur í tímann, og verða þá fyrst fyrir fjárlögin 1913, eða fjárlög síðasta þings fyrir stríðið. Það þing gekk svo frá fjárlögunum, að útgjöldin voru áætluð 4 miljónir, en tekjurnar 3 miljónir og 700 þús. Nú vil jeg gera ráð fyrir og vona, að hv. þm. þyki ekki ofmælt að þrefalda öll gjöldin við það sem þá var. Þau hafa að vísu ekki þrefaldast á öllum sviðum, en það hafa verið færð rök fyrir, að á sumum sviðum hafa þau áreiðanlega þrefaldast, er tekið er tillit til hins mikla verðfalls peninganna. Líka eru það ekki lágar tölur, sem okkar unga fullveldi hefir í för með sjer, og bætast á útgjaldaliðinn. Ef menn nú tækju þetta svona í stórum dráttum, gætu menn búist við, að útgjöldin, saman borin við 1913, næmu 12 miljónum, en nú nema þau eftir áætlun fjárhagsnefndar 11,450.000, en verða sennilega nokkuð minni, eða hjer um bil 11 milj.

Ef teknar eru tekjurnar frá 1913 — 3 milj. og 700 þús. kr. — og þær hefðu átt að hækka jafnt, eða með öðrum orðum þrefaldast, þá ættu þær að verða nú 11 milj. og 100 þús. kr., eða sem næst því og gjöldin eru nú. Á þessu finst mjer það því sýnilegt, að gjöldin fara hvergi nærri fram úr hófi, heldur vantar okkur bersýnilega tekjur. Nú eru þær áætlaðar að eins rúmar 9 milj., en þyrftu að vera rúmar 11 milj. Þetta má ekki skilja svo, sem jeg sje að álasa stjórninni eða hv. fjárhagsnefnd fyrir, að þær hafi ekki reynt að afla landinu tekna. Bæði stjórnin og nefndin, og sjerstaklega nefndin, hafa gert sjer mjög far um að auka tekjurnar. En það er ekki hægt að búast við, að nefndin finni á stuttum tíma ráð til að bæta upp fleiri milj. kr. tekjuþörf.

En úr því svo er nú ástatt, mætti snúa sjer að fjárveitinganefndinni og spyrja, hví hún hafi ekki dregið saman seglin, þar sem tekjurnar vegi ekki upp á móti gjöldunum. En þá verður fyrst að líta á það, hvað háttv. deildarmönnum sýnist framkvæmanlegt. Og jeg býst við, að okkur komi öllum saman um það, að ekki sje framkvæmanlegt að takmarka framkvæmdirnar, eins og síðustu þing hafa gert.

Auðvitað má segja um einstakar smátillögur, að þetta megi spara. En hitt er víst, að ekki tjáir að sleppa þeim till., sem horfa til verulegra framkvæmda. Það mundi hvergi þykja viturlegt nje affarasælt. Og eins og jeg gat um, hafa undanfarin þing frestað mörgum framkvæmdum, sem viðurkent hefir verið að væru nauðsynlegar, í von um betri tíma. Því að þau hafa jafnan vonað, að þetta og þetta væri síðasta þingið, sem fjárhagsvandræðin kreptu að, síðasta þing stríðsins. Og þjóðin hefir látið sjer þetta lynda, því að hún hefir búist við hinu sama og treyst því, að eftir stríðið yrði hægt að taka til óspiltra málanna.

Jeg býst því við, að þjóðinni yrðu það mikil vonbrigði, ef nauðsynlegar framkvæmdir væru enn takmarkaðar um skör fram, eins og átt hefir sjer stað á undanförnum þingum.

Þeir, sem hugsa um, að landið fái sem mestar tekjur, verða að gera sjer það ljóst, að til þess að þetta geti orðið, þurfa atvinnuvegirnir að eflast; en til þess að þeir geti blómgast, þarf ríkissjóður að styðja þá. Þetta vill fjárveitinganefndin. Henni er það vel ljóst, að það þarf að framkvæma margt, t. d. leggja vegi og síma, gera vita og styrkja verklegar tilraunir, eins og gert hefir verið við Búnaðarfjelagið, og margt og margt. Menn verða að gæta þess, að þótt ýmislegu af verklegum framkvæmdum sje þann veg farið, að ríkissjóður hafi ekki beinan hagnað af þeim, þá hefir hann þó óbeinan hagnað af þeim flestum. Þær ljetta undir með atvinnuvegunum, og efling atvinnuveganna eykur gjaldþol landsmanna. Og sum fyrirtæki eru þann veg í eðli sínu, að þau eru bein tekjulind fyrir landssjóð, eins og síminn t. d.

Auk þessa hefir hið nýja ríkjasamband skapað ný útgjöld, og þótt þessir útgjaldaliðir sjeu nýir í fjárlögunum, þá geri jeg ráð fyrir, að flestir verði sammála um, að atvinnuvegirnir eigi ekki að gjalda fullveldisins. Og jeg geri enn fremur ráð fyrir, að þetta nýja ríkjasamband hafi þau áhrif á hugsunarhátt þjóðarinnar, að hún geri sig ekki ánægða með afturhald. Svo hefir það altaf verið í sögu þjóðarinnar. Sagan sýnir einmitt, að í hvert skifti, sem þjóðin hefir fengið einhverja rjettarbót, hefir öllu fleygt fram. Mjer virðist ókleift, að hægt sje að koma á jafnvægi á fjárhaginn þegar á fyrsta ári eftir ófriðinn. Það tekur nokkurn tíma áður en báðar skálar komist í samt lag. Og jeg geng ekki að því gruflandi, að ríkisskuldirnar vaxa næsta fjárhagstímabil.

Þá vil jeg enn fremur geta þess og leggja áherslu á, að þetta þing verður með stefnu sinni í framkvæmdum að marka spor og leggja grundvöll undir það fyrirkomulag, sem í framtíðinni ætti að verða sem næst lagi, og gjöldin ættu nú að benda næstu þingum á, að við svipaðar útgjaldaupphæðir og nú verða í fjárlögunum verður að miða tekjur landsins, þegar skattamálunum verður komið í sæmilegt horf og festu komið á tekjurnar. Og jeg geri ráð fyrir, að enginn megi gera sjer svo litlar hugmyndir um framkvæmdirnar, að við þurfum minna til þeirra en 12–13 miljónir á fjárhagstímabili, eða 6 miljónir á ári, og þær tekjur verðum við að fá í framtíðinni. Þetta bendir í þá átt, að stjórn og þing verða að haga sjer í tekjuöflun eftir þessu. Það er engum vafa bundið, að þjóðin telur það ekki eftir sjer, þótt hún beri töluverða skatta, ef hún veit, að þeim er varið til nytsamra framkvæmda. Ef þetta þing færi að lækka fjárveitinguna til verklegra framkvæmda, lýsti það ósæmilegu afturhaldi og óviðunandi.

Af þessu er það nú ljóst, að skattamálin eru lífsspursmál okkar á næstu þingum og eina málið, sem allir ættu og verða að leggja sig í líma með að ráða sem best fram úr. Á engu ríður eins og á engu liggur meira. Á þetta vil jeg leggja mjög mikla áherslu til brýningar stjórnar og þings. Og þótt þetta þing hafi ekki fundið svo mikla tekjuauka, sem þörf ef á, þá væntum við, að næsta þingi takist, að meira eða minna leyti, að laga hallann.

Á fyrri þingum hefir stjórnina og fjárveitinganefndina einatt greint á um áætlunarfjárhæðir. En nú er þessi ágreiningur með langminsta móti. Áætlanir stjórnarinnar fara oft nærri sanni, en þó ekki alstaðar. Nefndinni finst, að hún hafi enn oft klipið af mjög smámunalega fjárhæðir, sem litla þýðingu hafa fjárhagslega sjeð. Mest ber á þessu í 13. gr. Þetta hefir nefndin reynt að lagfæra með breytingum sínum. Mun jeg síðar drepa á þessar breytingar.

Annars skal jeg ekki rekja einstök atriði neitt að ráði. Og nú er mjer markaður bás af forseta í svipinn, þar sem jeg má ekki fara lengra en út að 12. gr. Við þennan kafla fjárlaganna hafa fáar brtt. komið, og síst sem þörf er að fjölyrða um frekar en gert er í nál.

Jeg þarf ekki að fara frekari orðum um brtt. við 8. gr. Jeg þarf ekki heldur að fjölyrða um brtt. við 10. gr. Nefndin hefir haft þá stefnu, að áætla þetta sem tryggilegast, svo að þetta fari ekki fram úr því, sem gert er ráð fyrir.

Um brtt. nefndarinnar við 9., 10. og 11. gr. skal jeg geta þess, að þær auka útgjöldin um 123,500 kr. Mestur hluti þessarar fjárhæðar er fyrirfram ákveðinn af þinginu, t. d. útgjöldin til landhelgisvarna. Jeg lít svo á, að þingið hafi þar þegar gengið inn á þessa stefnu, sem brtt. ber með sjer.

Þá eru brtt. frá einstökum þm. Er það að eins ein, brtt. á þgskj. 596. Þótt flm. hennar hafi ekki gert grein fyrir till., get jeg lýst yfir afstöðu nefndarinnar til hennar.

Brtt. þessi fer fram á að liðurinn til sendiherra í Kaupmannahöfn falli niður. Það segir sig sjálft, að þar sem nefndin hefir ekki borið fram brtt. um að fella þennan lið niður, þá muni hún ekki vera því meðmælt, að hann falli niður. Jeg geri ráð fyrir, að stjórninni sje áhugamál, að liðurinn fái að standa, og að hún muni verja hann, því að hann er ein af þeim till., sem glöggvast marka þær línur, sem hið nýja ríkjasamband hefir skapað.