10.09.1919
Efri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

135. mál, húsagerð ríkisins

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil leyfa mjer að láta þess getið, að orsökin til þess, að þetta er komið fram í frumvarpsformi, er sú, að stjórnin fór þess á leit við fjárveitinganefnd Nd., að tekið væri upp í fjárlög og fjáraukalög fjárveiting til viðbótar við geðveikrahælið á Kleppi. Hv. fjárveitinganefnd svaraði stjórninni á þá leið, að hún sæi sjer ekki fært að taka upp í fjárlögin fjárveitingu, er ef til vill myndi nema ½ miljón kr. á fjárhagstímabilinu. Þar sem jeg get fallist á, að ástæða sje til þess fyrir hv. fjárveitinganefnd að hliðra sjer hjá þessu, sýndist eina úrræðið til að koma þessu í framkvæmd, að fá heimild með lögum til húsagerðarinnar og þá til lántöku um leið.

En úr því gengið var inn á þá braut, að fá heimild til þessarar húsabyggingar með sjerstökum lögum, þótti ekki nema eðlilegt, að fleiri byggingar væru teknar með, — enda hefði helsta mótbáran gegn þessu frv. verið sú, ef ekki hefðu verið teknar fleiri húsabyggingar upp í það, sem nauðsynlega þurfa að komast í framkvæmd.

Um nauðsynina á þessari viðbót við Klepp þarf jeg ekki að tala. Alþingi hefir þegar viðurkent hana með því að veita fje til undirbúnings byggingunni. Teikningar og kostnaðaráætlanir eru þegar fengnar, sem byggja má eftir, og sama er að segja um íbúðarhúsið á Hvanneyri, en aftur á móti ekki um Eiðaskóla.

Viðvíkjandi nauðsyninni á að byggja íbúðarhús og skólahús á Eiðum skal jeg láta þess getið, að umsóknir hafa komið um hann frá 60–65 nemendum, og verður líklega ekki hægt að veita nema helming þeirra inngöngu vegna húsnæðisleysis, og má búast við að enn örðugra reynist þegar fleiri deildir eru teknar til starfa. — Sje jeg því ekki, að komist verði hjá því að byggja, ef skólinn á að koma að nokkrum verulegum notum.

Þar á móti er ekki hægt að segja, að svo langt sje komið með landsspítalann. Þar er kostnaður allur óákveðinn enn. — En nú er verið að afla teikninga og kostnaðaráætlana um hann, og verða þær að sjálfsögðu lagðar fyrir Alþingi áður lagt verður út í að byggja hann. Hins vegar flýtir það fyrir undirbúningnum, ef vissa er fengin fyrir því, að hann komi að notum, ef hann reynist tryggilegur.

Málið var afgreitt með svo miklum flýti við 1. umr., að mjer hugkvæmdist ekki að leggja til, að því væri vísað til nefndar, og þá að sjálfsögðu til fjárveitinganefndar. Vil jeg skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki muni vera heppilegra að fresta umr. og vísa frv. til fjárveitinganefndar Mál þetta er svo mikilsvert, að mjer finst ekki verða hjá því komist, að það verði athugað í nefnd, og sje því nú vísað til hennar, kemur í sama stað niður og það hefði verið gert við 1. umr.

Af þessari ástæðu fer jeg ekkert út í brtt. þær, er fram hafa komið við frv., að þessu sinni.