17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

135. mál, húsagerð ríkisins

Magnús Torfason:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við frv., og neyðist því til að fara nokkrum orðum um hana.

Hv. þm. Ak. (M. K.) talaði um það, að við værum vel staddir fjárhagslega, og jeg vil ekki draga úr, að svo sje, sjerstaklega þegar litið er á, hvernig umhorfs er annarsstaðar í heiminum, og er jeg honum einnig samdóma um, og hefi fult þor til, að taka 10 milj. kr. lán, ef þess er þörf. En það, sem jeg hefi á móti frv., er að hjer er að ræða um að taka lán til óarðvænlegra fyrirtækja, og það er mikill og stór munur á því, að taka lán til arðvænlegra eða óarðvænlegra fyrirtækja, eins og jeg hefi áður sýnt; m. a. er miklu betra að fá lán í útlöndum til arðvænlegra fyrirtækja en óarðvænlegra.

Eins og byggingarefni eru nú dýr skilst mjer ekki rjett að hraða byggingum, nema það sje alveg óhjákvæmilegt, og jeg lít svo á, að svo sje um viðbótina við Kleppsspítalann. Húsrúm þar er alónógt og margir verða enn að sæta sömu hryllilegu meðferðinni og áður en spítalinn var stofnaður. Mannmörg hjeruð fá ekki að senda einn einasta sjúkling á spítalann, af því að þar er ekkert rúm autt.

Fyrir hin húsin tel jeg ekki brýna þörf, enda liggja engar kostnaðaráætlanir fyrir um þau, og þau hefðu hiklaust mátt að skaðlausu bíða næsta þings að ári, þau eru ekki þess eðlis, að þau standi fyrir vexti og framþróun þjóðarinnar. Án þess að fara frekar út í það vil jeg minnast á 1. liðinn, landsspítalann.

Við vitum, að nú eru tveir spítalar hjer í Reykjavík, auk þess sem fleiri spítalar eru hjer í nágrenninu, og nýtur Reykjavík mest allra hjeraða þessara spítala, en önnur hjeruð, er koma á fót hjá sjer sjúkrahúsi, fá að eins sárlítinn styrk til þess, mest 5000 kr., og sjá allir, hve mikið það er, eins og nú árar. Þetta stingur mjög í stúf við Reykjavík, og sjá allir, að hjer á misrjetti sjer stað.

Það er heldur engin ástæða til að fitja upp á þessu nú. Danir bygðu sjer landsspítala 1909, en áður höfðu flestir bæir komið sjer upp sjúkrahúsi. Hjer er um tildur að ræða af okkar hálfu, og auk þess er farið alveg öfugt í málið. Rjett hefði verið, að Reykjavíkurbær hefði boðið einhvern hluta til landsspítalans, ef bærinn hefði óskað, að hann yrði reistur hjer, og þá hefði öðru máli verið að gegna.

Jeg skal ekki þreyta hv. deildarmenn með langri ræðu, en jeg vænti þess, að þeir, sem eru gírugastir í að smella sköttum á þjóðina, og fylgja þar hæstv. fjármálaráðherra að máli, verði með því að spara ríkissjóði þessi útgjöld og samþykki því að minsta kosti síðari lið brtt. minnar, um að Reykjavík leggi fram fjórðung.

Loks vil jeg beina því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki bera upp hvern sjerstakan lið fyrir sig, þar sem hver liður er sjálfstæður og þm. geta því samþykt einn lið, þótt þeir greiði atkv. móti öðrum.