17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

135. mál, húsagerð ríkisins

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Tillögum nefndarinnar hefir verið vel tekið, og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir viðurkent, að það væri rjett að taka húsmæðraskóla Norðurlands upp í frv., en það láðist í hv. Nd. Jafnframt því, sem hann gat þess, þá tók hann það fram, að varla yrði byrjað á því fyr en efni til bygginga lækkaði í verði, en jeg vil taka það skýrt fram, að byggingin er jafnþörf og óhjákvæmileg, þótt byggingarefni lækki ekki. Það sem jeg tel hafa mesta þýðingu um það, hve nær skólinn verði reistur, er að áskilið er í lögunum, að það hjerað, sem skólinn verður reistur í, leggi fram 1/3 af stofnkostnaðinum. Þegar það hjerað, sem álíst svo vel í sveit komið, að skólinn eigi að standa þar, og hann komi þar að fullum notum, leggur fram 1/3 stofnkostnaðar, eins og lögin tilskilja, þá tel jeg sjálfsagt, að stjórnin beiti sjer strax fyrir því að hrinda málinu í framkvæmd, þótt byggingarefni lækki ekki í verði frá því, sem nú er.

Þetta vil jeg taka fram, svo ekki þurfi um það að villast, að ef fullnægt er þeim skilyrðum, sem lögin ákveða, eigi ekki frekar að fresta þessari byggingu en hinum öðrum, er frv. gerir ráð fyrir.

Þá skal jeg víkja lítillega að ræðu hv. þm. Ísf. (M. T.). Hann virtist helst mótfallinn því, að landið tæki að sjer undirbúning þann, sem nauðsynlegur er væntanlegum landsspítala. Að vísu væri það ekki óeðlilegt í sjálfu sjer, að Reykjavík legði fram nokkurt fje; þó verður varla með sanngirni krafist, að það verði til stórra muna, enda hafa bæjarbúar o. fl. þegar safnað allmiklu stofnuninni til styrktar. (M. T.: Það er ekki byggingarkostnaður). Nei, það er auðvitað fleira, sem þarf til slíkrar stofnunar, en byggingin.

Mjer finst það ganga hneyksli næst, að ekkert sjúkrahús skuli vera til hjer nema „prívat“ eign. Alment sjúkrahús hefði átt að vera komið hjer fyrir löngu. (M. T.: Reykjavík að kenna). En það eru fleiri en Reykvíkingar, sem eiga að njóta góðs af þessum spítala. Meðal annars vil jeg benda á, að hann á að verða einskonar uppeldisstofnun fyrir læknaefni.

Mjer skildist á hv. þm. (M. T ), að hann hjeldi að í Danmörku hefði til skammstíma enginn spítali verið rekinn af ríkisfje. Kannast hann þá ekki við t. d. Friðriksspítalann? En ef þetta er misskilningur, þá verður hann leiðrjettur. (Forseti: Þarf ekki! Ríkisspítali! Bygður á 18. öld!).

Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um málið. Þörfin á slíkri stofnun ætti að vera öllum ljós. Auðvitað verður henni ekki komið upp svona alt í einu; fyrst og fremst mun þurfa ein 2–3 ár til undirbúnings.

Þá kem jeg að Eiðaskólanum. Ekki get jeg fallist á þá skoðun hv. þm. Ísf. (M. T.), að allar þessar byggingar sjeu óþarfar, nema viðbótin við geðveikrahælið á Kleppi. T. d. er það um Eiðaskólann að segja, að þar er nú að eins rúm fyrir 20–30 nemendur, en fyrir næsta skólaár hafa þegar 60–70 sótt um inntöku. En fyrst ríkið ætlar að reka þennan skóla, má ekki minna vera en að hægt sje að hýsa helming þeirra, sem sækja, ef skólinn á að koma að nokkrum verulegum notum og ekki vera nafnið tómt.

Þá er að eins eftir Hvanneyri. Jeg heyrði að vísu ekki alt, sem hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) sagði um hann. En jeg vil segja það, að ef hjer er að eins um það að ræða að koma upp íbúðarhúsi fyrir skólastjórann, skil jeg ekki í öðru en að unt sje að komast langt með þeirri upphæð, sem veitt hefir verið, 60 þús. kr. En auðvitað er aldrei hægt að gera svo nákvæma áætlun, að engu skeiki, enda býst jeg ekki við því, að næsta þing amaðist við því, þó dálítið færi fram úr áætlun, ef óhjákvæmilegt reynist, enda getur það varla numið mjög miklu. Vænti jeg þess því, að till. nái fram að ganga.