22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

135. mál, húsagerð ríkisins

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Hv. Ed. hefir gert breytingu á frv. þessu, sem er í því fólgin, að binda fjárveitinguna til landsspítalans því skilyrði, að bæjarstjórn Reykjavíkur leggi til kostnaðar.

Fjárveitinganefnd Nd. getur fallist á, að það væri rjett, að Reykjavíkurbær ætti einhvern hlut í að reisa landsspítalann, en þessa leið, sem hjer er farin, telur hún alls ekki rjetta. Í fyrsta lagi er alls ekki hægt að neyða bæjarstjórnina til þessa fjárframlags, og í öðru lagi mun Reykjavíkurbær hafa í hyggju að reisa sjúkrahús fyrir sig.

Það má því næstum ganga að því vísu, að bæjarstjórn mundi ekki vilja leggja fje þetta til landsspítalans.

Hins vegar er það sjálfsagt, að Reykjavíkurbær komi upp sjúkrahúsi fyrir sig, og ætti honum ekki að vera það erfiðara en fátækum hjeruðum og kaupstöðum úti um land, sem klifið hafa þrítugan hamarinn til að koma upp sjúkraskýlum fyrir sig.

Annars er það sjálfsagt, að Reykjavík hafi sama rjett til landsspítalans og önnur hjeruð, og sjálfsagt mun bærinn nota hann mikið, þótt ekki taki hann sjerstakan þátt í að reisa hann.

Nefndin leggur því til, að þessi athugasemd falli burtu.

Þá hefir hv. Ed. felt niður íbúðarhús á Hvanneyri, og er það sjálfsagt gert vegna þess, að fje var vítt til þess í fjáraukalögum. En sú fjárveiting var ekki nema 60,000 kr. auk vátryggingarfjár, sem er 20,000 kr.

En þessar 80,000 kr. nægja hvergi nærri til þess að reisa húsið, svo að afleiðingin af því, að fella það hjer niður, mundi verða sú, að skólinn gæti ekki haldið áfram að starfa vegna fjárleysis.

Þetta hefir hv. Ed. sjálfsagt ekki athugað, er hún feldi liðinn niður. Hitt er ekki nema gott, að fje þetta var veitt í fjáraukalögum, svo að því fyr yrði byrjað á verkinu og því gæti orðið lokið fyrir næsta haust.

Þá hefir í hv. Ed. verið bætt inn í húsmæðraskóla á Norðurlandi, og er það ekki nema sjálfsagt, og í fullu samræmi við lög þau, sem hjer hafa verið samþykt áður um þann skóla.

Nefndin vill því, að þetta verði samþykt, og sjerstaklega leggur hún áherslu á, að Hvanneyrarhúsið verði tekið upp aftur, þar sem brýn nauðsyn er á, að það hús verði reist fyrir haustið 1920.