25.09.1919
Efri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

135. mál, húsagerð ríkisins

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Á þessu frv. hefir orðið sú breyting, að hv neðri deild hefir sett íbúðarhúsið á Hvanneyri aftur inn í frv. Fjárveitinganefnd vill ekki amast við þessari breytingu. En jeg vil þó með nokkrum orðum skýra frá því, hvers vegna nefndin taldi óþarft að hafa þessa byggingu í frv., þegar það var hjer síðast til umr.

Snemma á þinginu hjeldu fjárveitinganefndir beggja deildanna sameiginlegan fund með sjer. Þar voru viðstaddir allir ráðherrarnir. Á þeim fundi var rætt um byggingar ríkisins, og var þá sameiginlegt álit allra, sem á fundinum voru, að ekki væri fært að ráðast í þá stórbyggingu, sem ráðgerð var á Hvanneyri og áætlað var að mundi kosta 200 þús. kr. Eftir undanfarandi reynslu má telja líklegt, að sú bygging hefði varla kostað undir milj. kr. Þess vegna var álitið rjett að fara ekki lengra en það, að byggja íbúðarhús handa skólastjóranum, til þess að landið gæti fullnægt samningum við hann í því efni. Þetta varð því fremur að ráði, sem þá var álitið, að nota mætti gamla grunninn. Var búist við, að 60 þús. kr. mundu endast langt til þessarar byggingar; og þó kostnaðurinn yrði nokkuð meiri, yrði hann þá greiddur með aukafjárveitingu.

Á þetta mál voru allir sáttir. En síðan þetta gerðist hafði efri deildar nefndin ekkert um Hvanneyrarbygginguna heyrt. Þegar frv. til laga um húsabyggingar kom hingað í deildina, breytti nefndin því þess vegna samkvæmt þessum ákvörðunum nefndar og stjórnarráðsins. En þegar frv. kemur svo til neðri deildar, þá kemur upp úr kafinu, að önnur ákvörðun hefir verið tekin af neðri deildar nefndinni. Byggingarfróður maður hafði verið sendur á staðinn, og hann áleit að ekki yrði komist af með minna en 150 þús. kr. Þetta samþykti neðri deildar nefndin. Þetta er að vísu allmiklu meira en áætlað var, en fjárveitinganefnd efri deildar hefði þó ekki gert ágreining út af því, hefði henni verið nokkuð um það kunnugt.

Það virðist í fljótu bragði nokkuð undarlegt af nefndinni að leggja fyrst til, að Hvanneyrarbyggingin væri tekin út úr frv., en fallast síðan á, að hún standi þar. Vegna þess hefi jeg gefið þessa skýringu, en ekki vegna hins, að nefndin sje því mótfallin, að sæmilegt hús sje reist á Hvanneyri. Mjer virðist það satt að segja lítilsvirðing á fjárveitinganefnd þessarar deildar, að tilkynna henni ekki þá breytingu, sem orðið hafði á málinu, og vanræksla er það af hálfu hæstv. stjórnar að láta þetta ganga óupplýst gegnum deildina. Það er hæstv. stjórn og fjárveitinganefnd neðri deildar, sem eru þess valdandi, að afskifti nefndarinnar af þessu máli kunna að líta dálítið einkennilega út.