25.09.1919
Efri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

135. mál, húsagerð ríkisins

Forsætisráðherra (J. M.):

Það eru að eins örfá orð um brtt. á þgskj. 960, um að setja frv. aftur í sama form og hv. deild afgreiddi það áður í, að því er snertir landsspítalann. Það er sama og að hindra alveg framgang landsspítalamálsins að setja það skilyrði fyrir fjárframlagi til hans úr ríkissjóði, að Reykjavíkurbær leggi fram ¼ kostnaðar. Það er engin von til, að Reykjavík fáist til þess. Landsspítali er ekki gerður sjerstaklega fyrir Reykjavík. Hann er fyrst og fremst gerður vegna háskólans, enda gerir læknadeild háskólans sjerstaklega kröfu til spítalans, og konur þessa lands hafa mjög bundist fyrir málinu. Í öðru lagi er landsspítali gerður vegna þeirra sjúklinga af öllu landinu, sem leita sjer lækninga hjer í Reykjavík. Það er alveg tilviljun, að landsspítalinn skuli verða hjer í Reykjavík. En hann þarf að standa þar, sem háskólinn er.

Sú hugsun, sem liggur til grundvallar brtt., að Reykjavík sje ekki of góð til að leggja fje til sjúkrahúsbygginga jafnt og önnur bæjar- og sveitarfjelög, er að vísu sú, að önnur hjeruð verði að kosta til sjúkrahúsa. En þess ber að gæta, að Reykjavík losnar hreint ekki við þá kvöð að koma upp spítala, þó landsspítali verði reistur hjer. Reykjavík þarf nauðsynlega að koma sjer upp farsóttaspítala. Það er óverjandi, að enginn slíkur spítali skuli vera til hjer. Það á að reyna að notast við gamla spítalann. En hann er allsendis óhæfur, bæði of lítill, og farsóttaspítali má ekki standa inni í bænum. Reykjavík verður að reisa allstóran og dýran farsóttaspítala á næstu árum, bæði sjálfs sín vegna og eins vegna landsins. Menn hafa verið að tala um að nota sóttvarnarhúsið, en það er of lítið, og þar að auki gegn tilgangi þess að nota það til farsótta. Reykjavík getur ekki gert hvorttveggja, bygt sóttvarnarspítala og lagt stórfje af mörkum til að reisa landsspítala. En farsóttaspítala á að heimta að Reykjavík komi upp.

Jeg vona, að frv. verði samþykt óbreytt, eins og það er komið frá hv. neðri deild. Það væri vanþakklæti gagnvart konum landsins, ef nú ætti að koma að þeim fleyg, sem hindraði framgang landsspítalamálsins.