25.09.1919
Efri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

135. mál, húsagerð ríkisins

Guðmundur Björnson:

Jeg hefi kvatt mjer hljóðs í því skyni, að biðja flm. brtt. á þgskj. 960 að gera það fyrir mín orð að taka hana aftur.

Landsspítalamálið er gamalt mál, ef til vill þingsins elsta mál. Á fyrsta ráðgefandi þingi, sem hjer var haldið, var það eitt aðalumræðuefnið, að landið þyrfti að eignast spítala. Málið er því jafngamalt og Alþingi. En það er þar fyrir nýtt, og verður altaf nýrra og nýrra, eftir því sem nauðsynin eykst. Það liggja einkum tvær ástæður til þess, að þörfin fer sívaxandi. Eftir því, sem nýtum og sjerfróðum læknum fjölgar hjer í Reykjavík, eykst aðsókn sjúklinga til bæjarins. Þörfin fyrir meira spítalarúm er orðin knýjandi, og verður sífelt tilfinnanlegri. Annað er það, að læknakenslan er sífelt að færast í betra horf, en nauðsynlegt skilyrði fyrir góðri læknamentun er fullkominn spítali. Hvorttveggja þetta hefir vaxið með þjóðinni.

En menn láta jafnan klingja, að landsspítali verði einkum notaður af Reykjavíkurbúum, og því eigi Reykjavík að taka þátt í stofnkostnaðinum, og jafnvel að bera bróðurpartinn. Jeg skal síður en svo álasa flm. brtt. á þgskj. 960. Jeg var um eitt skeið sjálfur á þeirra máli. En ástæðan til þess, að þessi leið er nú orðin ófær, er sú, að Reykjavík er nú orðin miklu stærri bær en svo, að það komi til mála. Þetta er ástæðan, að Reykjavík er orðin alt of stór. Reykjavík getur með engu móti komist hjá því að reisa sjer sinn eigin spítala.

Það er ekki hægt að ræða þetta mál svo, að vit sje í, nema gera sjer grein fyrir nokkrum undirstöðuatriðum í spítalamálum.

Það er alheimsreynsla, að í bæjum þurfi 6 spítalarúm á hverja 1000 íbúa, en í sveitum ekki nema 3. í þessu tilliti mun hið sama ganga yfir okkar þjóð og aðrar. En við stöndum afskaplega langt að baki öðrum menningarþjóðum í að fullnægja þessari þörf. Það ætti að vera — ef jeg mætti nota nýtt orð — spítalapólitík þessarar þjóðar að koma sjer upp spítala í hverju einasta kauptúni landsins, og í öðru lagi spítala fyrir alla þjóðina. En hvað á hann að gera? Það get jeg sagt í stuttu máli.

Landsspítalinn er kórónan, og landsspítalinn er og verður síðasta athvarfið fyrir hina sjúku og þjáðu. Ef hinir sjúku og þjáðu fá ekki bót meina sinna í sjúkrahúsi heraðs síns, þá er landsspítalinn síðasta athvarfið og vonarhellan.

Hjer í bæ er útlendur spítali, Landakotsspítali. Hann hefir að gegna þessari tvöföldu þörf, og það þarf ekki annað, háttv. þingbræður, en að ganga upp í Landakotsspítala til þess að sjá það, að þörfin er brýn. Aðstreymi bæði hjer úr Reykjavík og utan af landi er svo mikið, að sjúklingar verða oft að bíða í langan tíma áður en þeir geta komist þangað.

Og hvaðan eru þá þessir sjúklingar? Ef farið er að gæta að því, þá sjest, að þeir eru fleiri utan Reykjavíkur en innan, og þá er ljóst, að landsspítali er ekki Reykjavíkurþörf, heldur er hann þjóðarþörf.

Jeg vil biðja háttv. þm. að muna vel eftir því, að landsspítalinn er ekki Reykjavíkurþörf, heldur þjóðarþörf.

Smáhjeruð um landið hafa komið sjer upp sjúkrahúsum. Þessi sjúkrahús eru mjög góð og reisuleg og kosta frá 30–50000 kr. Þetta er sannarlega virðingarvert, en þetta er ljós og órækur vottur þess, hversu þetta er rík þjóðarþörf, og því er ekki óþarfi að tala um spítalapólitík.

Hjer í Reykjavík er, eins og annarsstaðar, brýn þörf fyrir spítala. Jeg vil slá í borðið og jeg vil slá því föstu, að það sje skylda Reykjavíkur að koma sjer sjálfri upp góðum bæjarspítala. Hvað þyrfti bæjarspítali hjer að vera stór?

Enginn efi er á því, að ekki líður langur tími þar til að hjer verða 20 þús. manns, og reynslan sýnir, að það þarf 6 rúm handa hverjum 1000 kaupstaðarbúa. Spítalinn þyrfti því að hafa 120 rúm.

Reykjavík hefir ráðist í mörg stór fyrirtæki. Fyrst var byrjað á vatninu; það var þarft fyrirtæki. Þá var tekið gasið og höfnin. Þetta eru miljónafyrirtæki. Og ekki er þetta stærra, og það er eins þarft.

Hvort er þarfara, gasið eða spítali? Það þarf ekki að deila um það, að spítalinn er þarfari. (M. T.: Heyr!). Já, brýnasta þörfin, sem er fram undan og þarf að bæta úr, er bæjarspítali, en þetta kemur ekki landsspítalanum við.

Landsspítalamálið er þjóðarmál, og þá að sjálfsögðu landsspítalinn. En það er líka Reykjavíkurmál, því Reykjavík er partur af þjóðinni.

Jeg hefi heyrt menn óttast, að Reykjavík mundi hafa meiri not af landsspítalanum en önnur hjeruð, hlutfallslega eftir fólksfjölda. En menn verða að gæta þess, að Reykjavík er stór hluti af þjóðinni, milli 1/5 og 1/6 hluta. En það er engin ástæða til að óttast þetta. Það er ekkert hægara en að tryggja það, að öll hjeruð landsins geti hlutfallslega haft afnot sín af spítalanum, með því að segja, að hvert þeirra hafi rjett til vissrar tölu legudaga á ári.

Jeg er svo kunnugur spítalamálum, að jeg á hægt með að segja þetta með fullri vissu.

Þá hefir verið sagt í sambandi við þetta, að spítalinn yrði mest notaður úr Reykjavík og nálægari sveitum. Það þarf ekki annað en að gæta að aðsókninni á Landakotsspítala til að sjá þetta. Menn sækja hann eins úr fjarlægum sem nálægum sveitum.

Aðsóknin fer ekki eftir fjarlægðinni, heldur eftir þjáningu sjúklingsins. Þeir, sem mest eru þjáðir og eigi geta fengið bót heima hjá sjer, leita hingað, hvort sem vegurinn er langur eða skammur.

Landsspítalinn á að vera fyrir þjóðina, og við eigum fyrir hennar hönd að koma honum á fót og hafa hann myndarlegan og með öllum þægindum nútímans.

En við Reykvíkingar verðum sem fyrst að bæta úr þörfum okkar og koma upp bæjarspítala, og jeg er ekki í neinum vafa um, að við leysum þessa borgaraskyldu bráðlega af hendi og að við gerum það myndarlega.

Okkur, hv. þm., ber að hugsa um þjóðina, en ekki eingöngu um Reykjavík, og af þessu fer jeg fram á það við ykkur, góðir tillögumenn, að þið takið till. ykkar aftur, en jeg er fús aftur á móti að lofa því að stuðla á allar lundir að því, að Reykjavík eigi ekki meira ítak í landsspítalanum en önnur hjeruð landsins.