25.09.1919
Efri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

135. mál, húsagerð ríkisins

Magnús Torfason:

Mikils þykir nú við þurfa, og mikinn heiður hefir þessari litlu brtt. minni verið sýndur, þar sem hún hefir megnað að toga hæstv. forsætisráðherra (J. M.) inn í deildina og draga hv. 6. landsk. þm. (G. B.) úr forsetasæti. Vænti jeg, að deildin meti það við mig, að jeg hefi orðið til að veita henni þá ánægju, að hlusta á hina snjöllu ræðu hæstv. forseta vors.

Það verður vitanlega lítið um varnir hjá mjer, ófróðum leikmanni, eftir þetta stóra Kötlugos, sem hlaupið hefir yfir veslings brtt.

Í upphafi skal jeg taka það fram, að jeg ætlaði mjer ekki að tala frekar í málinu. Jeg leit svo á að þar sem ríflegur meiri hl. hefði verið hjer með brtt., þá ætti deildin rjett á að segja, hvort hún vildi beygja sig fyrir atkv. hv. Nd. nú þegar, eða hvort hún vildi halda fast við hana og láta skeika að sköpuðu um hana í sameinuðu þingi.

Því síður ætlaði jeg að taka til máls, þar sem mjer var kunnugt um það, að það var komin kvefpest í brtt., en hún er bæði smitandi og bráðdrepandi, eins og dæmin sanna.

Hv. 6. landsk. þm. (G. B.) hóf mál sitt á því, að það væri borgaraskylda Reykvíkinga að koma upp spítala, en þeir hefðu vanrækt það. Þessu er jeg sammála, því ekki virðist rjett að verðlauna þá vanrækslu með því að láta þá komast undan skyldunni.

Það, sem vakti fyrir mjer með því, að þessa tillags væri krafist frá Reykjavík, var ósk um það, að landsspítalinn yrði gerður sem allra best úr garði. Alt, sem bygt hefir verið fyrir landið, hefir verið bygt þannig, að eftir fá ár hefir það verið orðið alt of lítið og alls ónógt. Þess vegna leit jeg svo á, að rjett væri að hafa landsspítalann þeim mun stærri, sem tillag Reykjavíkur næmi, þannig, að hann verði bygður við vöxt, og fengi Reykjavík þá að sjálfsögðu tiltölulegan hluta af sjúkrarúmum við aðra landshluta.

Með þessu tel jeg Reykjavík góðu bætta, og gæti hún þá skotið því á frest að byggja sinn eigin spítala.

Enn fremur er ekki ætlast til þess, að Reykjavík leggi til neinn hluta rekstrarkostnaðar, heldur að eins hluta byggingarkostnaðarins, því landið á að hafa full umráð yfir spítalanum, að öðru leyti en rúmatölunni.

Jeg skal taka það fram, að jeg veit ekki til, að neinn áhugi hafi verið hjer fyrir því að reisa sjerstakan spítala fyrir Reykjavík, fyr en brtt. kom fram. Lítur út fyrir, að hann hafi vakist upp nóttina eftir að brtt. fæddist. Verið getur, að eitthvað hafi verið talað um það manna á milli, en ekkert var talað um að hefjast handa fyr en nú.

Hvað því viðvíkur, að Reykjavík sje skuldbundin til að byggja farsóttaspítala, er þess að gæta, að það mál tekur líka til þjóðarinnar. Okkur, sem búum úti um land, stendur ekki á sama, á hvern hátt sóttvarnir eru ræktar. Við súpum seyðið af því, ef farsóttir ná útbreiðslu í landinu, og við höfum sopið seyðið af því. En að minsta kosti hefði Reykjavík átt fyrirfram að vera fullkomlega skuldbundin til að byggja sóttvarnarspítala, svo ekki komi á okkar bak að byggja hann líka.

Jeg skal fullkomlega viðurkenna það, að þeir menn standa að mörgu leyti vel að vígi, sem heimta, að Reykjavík skuli ekki leggja neitt tillag til byggingar landsspítalans. En það er margt, sem hlynnir að Reykjavík, því hún dregur máttinn úr öllum öðrum bygðarlögum landsins. Hún dregur auðinn til sín. Þegar menn úr öðrum sveitarfjelögum eru orðnir svo efnum búnir, að þeir geta lifað á eignum sínum, flytja þeir venjulega til Reykjavíkur. Sama er að segja um flesta efnuðustu kaupsýslumennina, og þess vegna eiga smábæirnir svo erfitt uppdráttar.

En það get jeg sagt hv. 6. landsk þm. (G. B.), að ekki eru allir læknar á sama máli og hann. Einn af mikilsvirtustu læknum þessa bæjar sagði, að í sjálfu sjer væri rjettast að fara þá leið, sem brtt mín stefnir. — Sagði hann enn fremur, að það væri fortakslaust hneyksli fyrir Reykjavíkurbæ að eiga ekki eitt einasta flet fyrir einn einasta sjúkling.

Hvað þjóðarþörfinni viðvíkur, sje jeg ekki betur en að landið kunni fullkomlega að meta hana, með því að leggja til ¾ byggingarkostnaðar landspítalans og allan rekstrarkostnað hans að auki.

Út í ræðu hæstv. forsætisráðh. (J. M.) skal jeg ekki fara. Hann skaut sjer undir kvenfólkið, röksemdum sínum til styrktar.

Honum fór líkt og brennumanninum eftir Flugumýrarbrennu, sem ljet konurnar sitja á sjer meðan Gissur jarl leitaði hans í Eyjafirði.

En minna má hann (J. M.) á það, að fje það, sem safnað hefir verið til landsspítalans, á ekki að ganga til byggingarkostnaðar, og harma jeg það ekki, því fleira þarf að gera en reisa húsið.