12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Forsætisráðherra (J. M.):

Það var gagnvart samanburði háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) á tolli á salti og kolum. Verðmunur er mikill, og kolaverð hærra en búast mátti við, og er því ekki hægt að leggja kol og salt að jöfnu. Í Englandi eru kol nú komin um eða yfir 100 kr. tonnið og geta þá allir sjeð, í hvaða verði þau hljóta að vera hjer, eftir því hvað allur flutningur er dýr. Það má ekki búast við, að hægt verði að selja þau fyrir minna verð en gert er. Viðvíkjandi því, að láta tollinn jafnast yfir lengri tíma, er það að segja, að það er athugavert fyrir ríkissjóð. Enginn getur sagt um, hvað hátt verð stendur lengi bæði á kolum og öðru, og ef verðfall verður, þá er örðugra að hafa háan toll. Jeg vona, að hv. þm N.-Ísf. (S. St.) komi ekki með brtt. til lækkunar, enda er hægt að breyta þessu síðar, hve nær sem verkast vill.