15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Stefán Stefánsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 800, sem fer fram á það að hafa ekki fastbundið ákvæði um það, hve nær ríkið hætti einkasölu á kolum.

Ástæðurnar til þessarar brtt eru þær, að svo getur farið, að þegar að þessum tíma kemur, verði allmikið eftir fyrirliggjandi af kolum, og verði landsstjórnin þá að hætta sölunni hvernig sem á stendur, og getur þá svo farið, að ríkissjóður verði fyrir stórtapi.

Eins og nú standa sakir, eru miklar kolabirgðir fyrirliggjandi úti um land, og á því er mikil tvísýna, að þær verði til þurðar gengnar, þegar að þessum tíma kemur, sjerstaklega þegar þess er gætt, að togarar taka naumast meira en einn tíunda af kolum þeim, sem þeir nota, hjer á landi.

Þetta tímatakmark getur því orðið mjög varhugavert. Hitt væri rjettara að mínu áliti, að hæstv. stjórn hefði óbundnar hendur um það, hve nær hætt væri einkasölunni. Þegar hún sæi það fært eða hyggilegt, auglýsti hún það með þeim fyrirvara, sem hún sæi hagkvæmast bæði fyrir ríkið og þá, er kolin aðallega kaupa og nota Þá er líka annað hugsanlegt, sem mjer þykir þó ósennilegra, að kolabirgðirnar þrytu fyrir 1. júlí á næsta ári. En þá ræki líka í vandræði. Útvegur sá, sem kolanna þyrfti með, yrði þá að stöðvast, og auk þess mistu aðrir landsmenn af notkun kolanna. Þetta gæti orðið mjög svo bagalegt.

Hins vegar geri jeg ekki ráð fyrir, að svona muni fara, þótt það sje hugsanlegur möguleiki.

Annars get jeg ekki sjeð, hvers vegna verið er að ákveða þennan tíma, þar sem það getur ekki orðið til neins hagnaðar. nema ef vera skyldi 4–5 kolakaupmönnum. Þeir mundu þá geta náð sjer í 20 kr. beinan gróða á tonni, með öðrum orðum, þeir mundu selja kolin þessum mun dýrara en ríkissjóður.

En það er ekki að eins þetta út af fyrir sig, sem mjer gerir, heldur hitt að jeg álít að í þessu geti falist meira en lítið tap fyrir landssjóð, og verulegt óhagræði fyrir fjölda landsbúa.

Jeg vildi að eins leiða athygli hv. þingd.-manna að þessu, og gefa þeim kost á að greiða atkv. um þetta atriði; þess vegna hefi jeg komið fram með brtt.

Nú má búast við, að þing komi saman tímanlega á næsta ári, og ætti þá að vera hægara að áætla, hve nær kolabirgðirnar þrjóta, enda mundi þá nógur tími til að setja þetta tímatakmark, sýndist þinginu það nauðsynlegt.