15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Sigurður Stefánsson:

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 820, um það, að þessi tollur verði lækkaður um 5 kr. Sú brtt. er þó ekki flutt af því, að jeg sje alls kostar ánægður með 15 kr. tollinn. Mjer er sem sagt farið að ofbjóða, ekki reyndar svo mjög fjöldi þessara tollaukafrv., heldur hitt, að mestur hluti þessara tollabyrða er lagður á sjávarútveginn.

Jeg skal játa það, að hann hefir breiðara bak til að bera þær en landbúnaðurinn, en hjer eru hlutföllin orðin alveg röng og það hlýtur að teljast í alla staði ósanngjarnt.

Um þetta mál hefði jeg helst kosið, að engin lög hefðu verið sett, heldur hefði stjórninni verið heimilað að halda áfram einkasölunni, eins og hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) heldur fram í brtt. sinni.

Það væri heldur engin hætta á, að stjórnin mundi misbeita því valdi sínu, þar sem Alþingi gæti árlega tekið í taumana, ef á þyrfti að halda.

Jeg skal ekki dæma um það, hvort heppilegra muni í framtíðinni að hafa einkasölu á sjerstökum vörutegundum eða ekki, en jeg skal játa það, að jeg ann meira frjálsri sölu en einkasölu á nauðsynjavörum, þó aldrei nema hún sje í höndum ríkisins.

Kolabirgðir þær, sem ríkissjóður á nú fyrirliggjandi, eru mjög miklar; eftir upplýsingum, sem jeg fæ nú, eru þær ekki minna en 14 þús. tonn.

Jeg verð því að halda, að með einkasölu á þeim birgðum ætti stjórnin að geta nokkuð unnið upp hallann. Það er því ekki brýn nauðsyn á að leggja þennan nýja toll á kolin. Þetta kann nú að vera misskilningur hjá mjer, en mjer sýnist nú svo í fljótu bili.

Og þar sem þessi nýi tollur legst nú ofan á alt annað, sem þingið hefir lagt á sjávarútveginn, þá er það víst, að þetta verður æði tilfinnanlegt, þar sem þessi 20 kr. kolatollur mundi kosta hverja meðaltogaraútgerð um 20–30 þús. kr. á ári.

Þess má líka geta, að öðruvísi hagar til um hann en salt- og síldartollinn.

Sá tollur verður því minni, sem minna fiskast, en kolatollurinn er samur og jafn hvernig sem gengur. Hann verður að greiða alveg eins fyrir því, þó útgerðin bregðist með öllu, að eins ef skipunum er haldið úti.

Jeg tel því alveg í rjetta átt farið með þessari brtt. minni, en hún hefði helst átt að ganga lengra og fara fram á meiri lækkun.

En eins og jeg tók fram áðan hefði jeg helst viljað, að þessum tolli væri slept með öllu, en stjórninni leyft að vinna upp hallann með einkasölu á kolunum.