15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Einar Arnórsson:

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir nú upplýst, að nú með þeirri einkasölu, sem er á kolunum, hafi þau þegar verið hækkuð um 20 krónur, eða sem svarar skattinum, svo hann gerði enga breytingu á verðhækkuninni. Þetta getur vel verið, og það er alls ekki það, sem jeg átti við, heldur hitt, að 20 kr. verðhækkun á hverju kolatonni er alt of mikil verðhækkun. Mjer er alveg sama, hvernig gjaldið er lagt á, en mjer er ekki sama hvað það er hátt, því það eru takmörk fyrir því, hvað atvinnuvegirnir geta borið. Það þótti t. d. afskaplegt í Bretlandi, þegar kolatonnið hækkaði um 6 sh. En við virðumst ekki bera neinn kvíðboga fyrir, að atvinnuvegir okkar geti borið 20 króna toll af kolunum, sem er þó rúmlega þrefalt hærri en sá tollur, sem breska heimsveldið stynur undir. Jeg held, að ríkissjóður megi illa við því, að verulegur afturkippur komi í aðalatvinnuvegi landsins, eins og fullkomlega má búast við, ef þessi tollur verður að lögum. Og hvers vegna má líka ekki lækka tollinn niður í 5–10 kr. og dreifa honum á lengri tíma? Þessi uppvinsla á kolatapinu er alveg eins og þegar maður er að borga skuld. Það er ólíku ljettara fyrir þann, sem borga á, að mega gera það á mörgum árum með litlum afborgunum árlega, en að lúka skuldinni á stuttum tíma. Alveg eins er hjer ástatt. Og þetta er öllum auðskilið mál. Mjer finst till. hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) ganga alt of skamt, og jeg kem með brtt. við 3. umr. um að lækka tollinn meira.