24.09.1919
Efri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Magnús Kristjánsson:

Mjer er það ekkert kappsmál, hvort tollurinn er 10 kr. eða 5 kr., því jeg tel heppilegast að halda núverandi fyrirkomulagi, þangað til hallinn, sem óhjákvæmilega hefir orðið á kolasölunni, er unninn upp. En með því eru kolin samt ekki seld hærra verði til almennings en annars og arðurinn síst meiri en venjulegur verslunararður. En verði fyrirkomulaginu breytt, mundu kolin hækka í verði að sama skapi sem tollurinn hækkaði, en hins vegar leiðir það af sjálfu sjer, að því lægri sem tollurinn er, því fleiri ár þarf til þess að vinna upp hallann. Nú má svo heita, að kol sjeu ófáanleg í Englandi, eða þá verðið afskaplegt þegar þau fást. Innkaupsverðið er nú 90–110 kr. tonnið eftir gæðum, og flutningsgjaldið 75 kr. Þar við bætist svo allur kostnaður við vinnu í landi. Menn ættu því að sjá, að með öllum þessum geipikostnaði er útsöluverðið nú fremur lágt, enda tel jeg víst, að stjórnin muni í lengstu lög reyna að halda verðinu niðri. En ef núverandi fyrirkomulagi væri slept, má búast við því, að verðið hækkaði.

Annars ætla jeg ekki að reyna að hafa áhrif á þetta mál.