08.07.1919
Neðri deild: 5. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

19. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Í fjárlagafrv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir því, að þeim skattalögum, sem nú eru í gildi, verði ekki kipt í burt. En jafnframt er drepið á hina brýnu nauðsyn, sem á því er að endurskoða skattalöggjöfina. Fyrir þetta þing gat þeirri endurskoðun ekki verið lokið, og þarf ekki að færa rök að því, svo augljóst er það, þar sem stjórnin var önnum kafin við ýms stórmál og á síðasta sumri voru 2 þing, annað í 100 daga, en auk þess var ekki heppilegt að hefja harða hríð um skattameginreglur á þessu þingi, því að vel gæti hún leitt til þess að lítið kæmist af tekjuaukum í gegnum þingið, en eitthvað fallið af því gamla, en þetta þolir landssjóður ekki. En til bráðabirgða verður því aðallega að hugsa um að ná í auknar tekjur, en endurskoðunin verður að bíða til 1920 og 1921, en á því tímabili ætti henni að vera lokið.

Jeg leyfi mjer að vænta þess, að frv. verði, að lokinni umr., vísað til fjárhagsnefndar.