03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Bæði sú niðurstaða, sem hv. fjárhagsnefnd kemst að, og sú niðurstaða, sem jeg er kominn að, benda á, að hallinn á fjárlögunum. þegar gert er ráð fyrir útgjöldum samkv. launalögunum, verði um 2 miljónir kr. Að vísu má gera ráð fyrir að tekjuáætlun stjórnarinnar sje helst til lág. En þótt tekjurnar verði dálitlu hærri en stjórnin hefir áætlað, þá er þess að gæta, að útgjöldin verða meiri en áætlað er af þinginu, auk útgjalda samkv. launalögunum, eða útgjöld samkv. ýmsum sjerstökum lögum, sem ekki eru talin í fjárlögunum, og tekjuafgangurinn verður varla of mikill til þess að mæta þessum sjerstöku útgjöldum.

Jeg skal rifja hjer upp það, sem jeg tók fram í byrjun þings, að gamlar og nýjar skuldir mundu um áramótin hafa numið hjer um bil 5½ milj. kr., ef landsverslun og skip hefði verið gert upp. Hag landsverslunarinnar, góða 1 milj., taldi jeg þá ekki með. Háttv. fjárhagsnefnd telur, að enginn halli verði á árinu 1919, en hv. frsm. (M. G.) var þó í miklum vafa um þetta atriði. Um þetta ár, 1919, vísa jeg til athugasemda, er jeg gerði við fyrstu umræðu fjárlaganna, og er mjer næst að halda, að á því ári verði ekki minni en 1 milj. kr. halli, en um það má deila. Væru þá skuldirnar við áramót orðnar 6½ milj. kr. En sýnilega aukast þessar skuldir stórlega úti í framtíðinni. Fyrst er nú hallinn, ef ekkert verður gert til að draga úr honum, sem jeg tel óhæfilegt. Þá bíða 2 milj. skuldir í viðbót úti í framtíðinni.

En þar sem þetta þing gerir ráðstafanir til stórvægilegra framkvæmda, með sjerstökum lögum, sem allar á að gera fyrir lán þá er því meiri ástæða til þess, að fara með einhverju viti í hin árlegu útgjöld og búa ekki til stóran fjárlagahalla, alveg umhugsunarlaust.

Jeg veit ekki, hvernig hv. fjárveitinganefnd hefir hagað störfum sínum. En jeg geri ráð fyrir, að hún hafi borið sig saman við hv. fjárhagsnefnd um það, hve mikill hallinn mætti vera á fjárlögunum, og þegar svo sá rammi var dreginn upp, hafi útgjöldunum verið hagað eftir því En mig furðar bara stórlega á, að nefndirnar skuli þola að horfa framan í svo mikinn halla. Hv. framsm. fjárveitinganefndar (M. P.) gaf í skyn í ræðu sinni, að stjórnin hefði ekki sjeð landinu fyrir nægilegum tekjum. (M. P.: Jeg tók það fram, að jeg álasaði ekki hæstv. stjórn). — Þá hefir mjer heyrst dálítið skakt. — En hvað sem því líður, þá get jeg fullyrt, að stjórnin hefir, síðan jeg tók við fjármálunum, leitast við að ná eins miklum tekjum og hún hefir sjeð sjer fært. Get jeg þar nefnt meðal annars stimpilgjaldið, sem gefur 1 milj. kr. í tekjur; þá er líka gróðaskatturinn o. fl. Auk þess hefir stjórnin lagt fyrir þetta þing ýms tekjuaukafrv., sem jeg vona að gefi drjúgar tekjur.

En verði ekki dregið úr gjöldunum nú að mun, þá er það sýnilegt, að óhjákvæmilegt er að auka skattana á þjóðinni að miklum mun, bæði vegna fjárlagahallans, og svo vegna útgjalda þeirra, vaxta og afborgana, sem greiða verður af hinum nýju lánum, sem gert er ráð fyrir að tekin verði til ýmsra framkvæmda, sem þetta stórstíga þing hefir nú á prjónunum.

En hvar á að taka þessa skatta? Við hvern nýjan tekjuauka kveinka menn sjer.

Á að leggja aukinn skatt á kaffi og sykur? Með því mætti auka tekjurnar að mun, en hvað segir þjóðin við slíku?

En þetta verður hv. Alþingi að gera sjer ljóst, að svo framarlega, sem það er hóflaust í útgjöldunum, þá verður það að súpa seyðið af því og samþykkja ýmsa tekjuauka, sem þjóðin fagnar ekki yfir. Jeg hef verið að reyna að sneiða mest hjá þeim tekjuaukum, sem sárast koma við fátæklingana, og jeg hef verið að reyna að koma sköttunum á þá, sem best geta borið þá, og þó hefir verið óánægja yfir sköttunum, en hvað verður, ef nær verður að ganga þjóðinni? Þingið verður að gera sjer þetta ljóst; best að horfa sem fyrst í augun á sannleikanum, þó hann sje nokkuð harður á svipinn.

Um einstakar brtt. skal jeg lítið segja. Þær brtt., sem leiða af sjer mesta hækkun, liggja ekki fyrir til umr. hjer, því þær eru í seinni kafla fjárlaganna. Það má að vísu segja, að vegagerðir sjeu nauðsynleg fyrirtæki. En þó álít jeg, að það verði að athugast, hvort ekki muni heppilegra að gera minna að þeim framkvæmdum, þó nauðsynlegar sjeu, heldur en að kasta öllu yfir á hallann. — Þær brtt. í þessum kafla, sem aðallega snerta mig, eru viðvíkjandi hagstofunni. — Það kann að vera, að stjórnin hafi farið heldur lágt í till. sínum um hana. En það er reynsla mín, að rjettara sje að halda heldur í við slíkar stofnanir heldur en hitt, því þær fara venjulega fram á það frekasta. Jeg skal játa, að hagstofunni muni vera þörf á auknum starfskröftum. T. d. er leiðinlegt hvað verslunarskýrslurnar eru orðnar á eftir. Veit jeg, að hagstofustjórinn vill koma þessu sem fyrst í lag, því hann er starfsamur maður en vinnukraftur er fulllítill í hagstofunni. Að endingu vil jeg taka það upp aftur, sem jeg sagði fyr í ræðu minni, að það hefnir sín, ef nú er farið gálauslega með fjármálin.