15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

71. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg vænti þess, að háttv. deildarmenn hafi lesið nál á þgskj. 801 og þar sjeð, hvernig allsherjarnefnd lítur á þetta mál. Það er þó ekki þannig að skilja, að allsherjarnefnd álíti, að frv. sem þetta eigi ekki að ganga fram á sínum tíma. En hún lítur svo á, að sem stendur sje málið eigi nægilega undirbúið.

Á meðan sýslumannsembættið í Eyjafjarðarsýslu er ekki laust, og ekki er víst, hvort núverandi sýslumaður tekur laun sín eftir nýju launalögunum, telur nefndin ekki rjett, að hjer sje breytt til. En jafnskjótt sem sýslumannsembættið losnar eða sýslumaður lýsir yfir því, að hann muni taka laun sín eftir nýju lögunum, myndu nefndarmenn, sem um mál þetta hafa fjallað, leggja til, að sú breyting komist á, er frv. fer fram á. Enn fremur, þótt sýslumaðurinn vildi ekki taka laun sín eftir nýju launalögunum, gæti vel verið, að landsstjórninni tækist að komast að samningum við þennan embættismann um uppbót á embættistekjum þeim, er hann missir við breytinguna, samningum, sem væru aðgengilegir. Tel jeg vel hægt að vera búið að því þá er næsta þing kemur saman, sem væntanlega verður ekki fyr en einhvern tíma á árinu 1920.

Virðist mjer sem háttv. flutningsmenn muni vel geta felt sig við niðurstöðu nefndarinnar, er hún er rökstudd á þann hátt, sem jeg hefi nú greint. Það þarf ekki að líða langur tími, þar til þessum skilyrðum er fullnægt. En á meðan sjer nefndin sjer ekki fært að leggja til, að frv. verði samþykt.