29.07.1919
Efri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

90. mál, rannsókn símaleiða í Rangárvallasýslu

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Fyrir hv. deildum liggja ýmsar málaleitanir um rannsókn símaleiða og lagningu síma; veit jeg ekki, hversu margar þær eru, en jeg tel víst, að bæði stjórnin og háttv. þing bregðist vel við þeim. Álít jeg nauðsynlegt, að símastjórnin láti rannsaka, hverjar leiðir sjeu heppilegastar, í samráði við kunnuga menn. Þegar nú öll helstu kauptún og verslunarstaðir hafa fengið síma, er ekki nema rjettmætt, að eðlilegum kröfum frá sveitunum sje sint. Mjer virðast kröfur hv. flm. (E. P.) hóflegar, og álít jeg sjálfsagt, að rannsókn málsins sje flýtt svo sem unt er. — Aðalhængurinn á þessu máli er, eins og hv. flm. (E. P.) tók fram, að landssíminn hefir eigi undan að afgreiða símatölin, en jeg tel óhjákvæmilegt, að úr því verði bætt hið bráðasta. Stjórnin er búin að tryggja sjer fje til að koma þessu í framkvæmd, en beðið hefir verið eftir betri aðstöðu, sjerstaklega ódýrari flutningi og efni. Get jeg getið þess, að einkum er nauðsyn á að leggja beina línu hjeðan til Borðeyrar og Vestmannaeyja.

Stjórnin vill styðja þetta mál, og vona jeg að háttv. deild sje henni samdóma í því.

Annars virðist mjer málið svo einfalt og óbrotið, að óþarfi sje að vísa því í nefnd.