14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

19. mál, vörutollur

Bjarni Jónsson:

Mjer þykir það illa farið, að nefndin skuli ekki hafa sjeð sjer fært að fara eftir tillögum mínum í þessu máli, þeim, að fella niður vörutollinn og láta koma verðtoll í staðinn. Jeg hefi altaf verið sannfærður um, að það eitt væri rjettlátt, að leggja toll á eftir verði, en ekki eftir þunga. Það ætti ekki að þurfa, að þessu sinni að fara ítarlega út í þetta, því það ætti að vera öllum augljóst, en þó ætla jeg að rifja upp dæmið, sem jeg tók um daginn. Maður flytur inn í landið eitt pund af demöntum; annar flytur inn í landið eitt pund af lýsissápu. Það sjá allir, að það er með öllu rangt, að þeir skuli báðir vera látnir greiða sama toll. Það er nú mikið talað um tekjuþurð, og hversu landssjóður þurfi að fá meiri tekjur. Nú er þessi tollur greiddur í peningum af hverju innfluttu pundi. Peningarnir hafa, eins og alkunnugt er, lækkað mikið í verði. En hvers vegna á að láta landssjóðinn einan bera skaðann, sem verðfallið veldur? Hann verður þó að gjalda starfsmönnum sínum þann skaða, er þeir hafa orðið fyrir. Það verður því að reikna tekjurnar eftir sama mælikvarða sem gjöldin.

Menn segja, að það mundi koma hart niður á þjóðinni að hækka tolla, í dýrtíð þeirri, sem nú er.

En í fyrsta lagi er þar til því að svara, að þótt tollurinn hækki að krónutali, þá hækkar hann ekki í raun og veru.

Í öðru lagi hljóta öll gjöld, sem í landssjóð renna, að koma frá þjóðinni, því að ekki munu aðrar þjóðir fara að leggja gjald í landssjóð, og þess mun langt að bíða, að þær verði hjer skattskyldar.

Mjer þykir því leitt, að nefndin skuli ekki hafa orðið við tilmælum mínum og breytt gjaldi þessu, þar sem einnig stendur mjög vel á því nú, þegar stjórnin á eftir að semja ný skattalög. En nú getur vel svo farið, að hún verði ekki tilbúin með skattafrv. sitt 1921, og þótt svo yrði, er það ekki víst, að þingið afgreiddi þau lög þá, þar sem málið er allumfangsmikið. Ef til vill verður þess að bíða í ein 5–10 ár.

Hjer verður því alls ekki sagt, að tjaldað sje til einnar nætur. Þess vegna var það næstum sjálfsagt að láta þá breytingu fram fara nú, að koma á verðtolli.

Það hlýtur að standa ómótmælanlegt, að frá þjóðinni hljóta gjöldin að koma í ríkissjóðinn, en þar með er ekki sagt, að ekki mætti finna annan rjettlátari gjaldstuðul en tollana.

En á undanfarandi þingum hefir ekki verið nærri því komandi að fá því breytt. En eins og hv. þm. er kunnugt, hefi jeg aldrei talið tollana annað en lögleyfðan vasaþjófnað; en þó svo sje, tel jeg ekkert geta mælt í móti því, að hafa vit nokkurt í þeim ræningjahætti og taka meira gjald af því, sem meira er vert.

Mjer þykir það undarlegt, að lög þessi skyldu nokkurn tíma vera samþykt, en hitt þykir mjer undarlegra, að þingið skuli liggja á þeim sömu fúleggjum enn þann dag í dag.