14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

19. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra(S. E.):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. nefnd fyrir það, að hún hefir lagt til að samþykkja frv. þetta óbreytt.

Jeg get vísað til fyrri ummæla minna um endurskoðun á skattalöggjöfinni, sem ætlast er til að fari fram á árunum 1920 og 1921, en samkvæmt þeim sá stjórnin sjer ekki fært nú að gera gerbreytingu þá á þessu frv., sem hv. þm. Dala. (B. J.) leggur til, en væntir hins vegar, að hv. deild samþykki frv. þetta, með sjerstöku tilliti til hinnar brýnu tekjuþarfar.

Það er að vísu leiðinlegt, að ekki skuli vera hærri tollur á gullskrauti og glingri heldur en nú er. Og það ætti ekki að vera ókleift að taka það verðmæti út úr og leggja á það sjerstakan skatt. En erfiðleikarnir felast í því, að reynt mundi verða að koma vörum úr þeim flokki yfir í aðra verðminni flokka.

En til þess að hafa fullnægjandi eftirlit með því þyrfti sterkari tollgæslu en nú er.

Annars vildi jeg taka það fram, í sambandi við skattafrv., að það myndi margborga sig að auka tollgæsluna, sjerstaklega hjer í Reykjavík, og vona jeg, að það verði sem fyrst tekið til greina af þinginu.