31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

102. mál, atvinnulöggjöf o. fl.

Bjarni Jónsson:

Mjer var það vel ljóst, er jeg bar fram frv. mitt á dögunum, að jeg hafði hvorki haft nægilegan tíma nje kunnáttu til þess að gera það svo vel úr garði, að jeg kysi, að það gengi þá fram. Jeg lýsti þá yfir því, að jeg hefði sett það fram sem stefnuskrá. Hins vegar setti jeg það í sjálfsvald grautarpotts deildarinnar, allsherjarnefndar, hvort kleift væri að gera mat úr því á þessu þingi. Og jeg ætla að jeg gæti þess, að jeg væri ánægður ef fram kæmi yfirlýsing um að þesskonar löggjöf ætti að setja, með líkum skilyrðum sem fólust í frv. mínu.

Jeg get þess vegna látið mjer vel líka niðurstöðu nefndarinnar, sjerstaklega þar sem forsætisráðherra hefir lýst yfir að hann kunni henni vel. Jeg get vel skilið, að nefndin hafi verið varbúin að semja það eða þau frv., sem gætu ráðið málinu til lykta. Þó hygg jeg, að hún hefði getað tekið út úr frv. ákvæði um búsetu fastakaupmanna, sem oft hefir verið hjer á ferðinni.

Hins vegar var óþarft af nefndinni að tala um það, hversu frv. mitt hefði verið ljelega úr garði gert, án þess að vitna í heimild sína fyrir þeirri skoðun, sem var eigin ræða mín, er jeg flutti fyrir frv. á dögunum. Annars hygg jeg, að segja megi um greinargerð nefndarinnar, að hún sje bæði undirbúningslaus og hugsunarlítil.