14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

19. mál, vörutollur

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi ekki farið fram á, að breytt yrði hjer neinni grundvallarstefnu, því að þótt komið yrði á verðtolli, er grundvallarstefnan alveg sú sama, að taka fje úr vösum manna.

Deila um grundvallarstefnu getur því ekki orðið neinum gjaldstofni að bana á þessu þingi. Jeg hefi að eins bent á nýja leið, sem gera mundi þennan vasaþjófnað rjettlátari og hallkvæmari fyrir landssjóð.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) var að afsaka það, að ekki er lagður hærri tollur á gimsteina og skartgripi. En það kemur ekki mínu máli við. Jeg tók það að eins sem dæmi upp á misrjetti það, sem nú á sjer stað.

En slíkt misrjetti kæmi ekki til greina, ef verðtollur væri. Það væri að eins einfalt reikningsdæmi, ef tekið væri ákveðið hundraðsgjald af verðinu. Það var að eins þetta, sem jeg vildi benda á, og jeg tel það víst, að betur yrði framkvæmdur þessi lögleyfði vasaþjófnaður, ef þessu væri komið til leiðar.