09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

119. mál, vegamál

Bjarni Jónsson:

Mjer er líkt farið og hv. þm. Stranda. (M. P.). Jeg hafði líka áskorun frá þingmálafundi um að koma á framfæri nýrri flutningabraut milli Búðardals við Hvammsfjörð og Borðeyrar. Um tillögu þá, sem hjer liggur fyrir, er það að segja, að mjer líkar hún mætavel. Jeg held, að þess sje full þörf, að rannsakað verði, hvar brýnust sje þörfin, og hvar rjettast sje að byrja. Að eins þykir mjer það galli á till., að það vantar í hana ákvæði um, að rannsaka skuli, hvernig vegir skuli gerðir, þannig að komi að sem bestu haldi. Því jeg er sannfærður um, að af þeim syndum, sem við drýgjum móti sparnaði, sje fjáreyðsla til vegagerða, eins og henni er hagað, einna stærst. Ekki af því, að það sje ekki sjálfsagt, að gerðir sjeu vegir og lagt fram fje til þess. En þær vegagerðir þurfa þá að vera þannig, að þær komi að nokkru haldi að staðaldri, en sjeu ekki bráðónýtar. Mjer dettur ekki í hug að neita nauðsyn vega, sem miða til samgöngubóta. En jeg er á móti sífeldum fjáraustri af alþjóðarfje í það sem kallað er vegir, en er í rauninni ekki annað en foræði. Og svo er um flesta þá vegi, sem of fjár hefir verið lagt í, en allir eru ónýtir. Þó eru undanteknir þeir vegir, þar sem náttúran hefir búið svo í haginn, að hraun er undir, eins og t. d. með Flóaveginn fyrir austan á kafla. Og auk þess eru einstakir vegir aðrir, sem gerðir hafa verið með sjerstakri vandvirkni. Jeg vildi, þó jeg komi ekki fram með breytingartillögu um það, mega skjóta því til stjórnarinnar, að hún ljeti vegamálastjóra rannsaka, hvort ekki mundi sparast við það talsvert fje, að gera vegina nægilega breiða og hafa í þeim trausta undirstöðu úr grjóti, og að vanda til þeirra yfirleitt, en ekki einungis að kasta mold ofan í mýrina og kalla það svo veg. Það hefir þráfaldlega hent mig á ferð um þessa vegi, og jeg býst við, að svo sje um fleiri, að alt hefir legið í for og bleytu. Vegir eiga að vera það vel gerðir, að þeir þoli öll akfæri og aðra umferð án þess að verða eins og fen. Jeg held, að ekki sje vafasamt, að þörf sje á að rannsaka þetta. Ef þegar í stað hefðu verið gerðir að eins góðir og sterkir vegir, mundi ekki þurfa að leggja fram stórar fjárhæðir árlega til vegaviðhalds, ekki til þess að þeir verði góðir, um það er ekki að tala, heldur til þess, að þeir verði færir til umferðar.

Jeg ætlast ekki til, að fram sje borin brtt. í þessu skyni, því að jeg tel víst, að orð mín og annara nægi til þess, að þetta verði tekið til athugunar.

En jeg lít svo á, að um leið og hæstv. stjórn felur vegfræðingi landsins að athuga þetta, þá gefi hún óbeinlínis loforð um, að fje skuli veita til að framfylgja þeim ráðstöfunum, sem honum þykir þurfa, samkvæmt þeirri niðurstöðu, sem hann kemst að við rannsóknir þessar. Og þá niðurstöðu er jeg ekki í neinum vafa um.

Jeg vil í þessu sambandi minnast á Laxárdalsveginn, sem Dalamenn hafa svo þráfaldlega beðið um. Hafa þeir farið fram á, að þar yrði lögð flutningabraut svo vönduð, að fær verði vjelavögnum, sem draga 1–2 aðra vagna eftir sjer. Til þess þarf auðvitað að vera vel til vegarins vandað.

Að vegi þessum mundu mikil not verða. Skal jeg fyrst telja þau not, sem alment hefðu þeir ferðamenn, sem til Norðurlands fara.

Ef fastar bátaferðir væru hjeðan upp í Hvammsfjarðarbotn bæði vor og sumar, þegar flest er um ferðalanga, kaupafólk og fleira, þá væri það mikið hagræði.

Eftir bátsferðina til Búðardals tæki þá við vagnferð til Borðeyrar. Þaðan er svo hægur vandi að komast sjóveg til næstu hjeraða í Húnavatnssýslu og Skagafjarðar, eftir því, hvert förinni er heitið.

Þegar þess er gætt, að ferðakostnaður er hjer allmikill með strandferðaskipum, og hins vegar er fæst kaupafólk, sem á hesta, þá mun það gott að fá slíkan flutning. Fólk þetta hefir líka venjulega farangur nokkurn meðferðis, en hann er einmitt ágætt að flytja á bátum og vögnum.

Slíkar ferðir sem þessar eru mjög tíðkaðar í Noregi. Bátar ganga á vissum tímum yfir firðina, og taka þá við vagnar, sem aka mönnum og flutningi yfir um eiðin eða hálsana fjarða á milli. Er öllu stilt í hóf, þannig, að bátarnir eru tilbúnir að taka við af vögnunum, hver á sínum stað o. s. frv.

Svo mætti einnig verða hjer. Þetta gæti því orðið til stórsparnaðar og þæginda þeim mönnum, sem þarna þurfa að leggja leið sína. Þá má í öðru lagi benda á það, hve nytsamur þessi vegur yrði bæði fyrir Strandasýslu og Húnavatnssýslu. Reyndar var þáverandi þm. Húnvetninga þessu mótfallinn fyrir nokkrum árum. En ótrúlegt þykir mjer, að hann sjái ekki, hvílíkt hagræði þetta væri bæði haust og vor fyrir alla þá, sem kaupafólk fá hjeðan að sunnan. Þar að auki getur það komið fyrir í ísárum, að skipaleiðir teppist til hjeraða þessara.

En altaf má komast hjeðan og inn á Hvammsfjörð. Það hefir að vísu verið talið til, að Hvammsfjörð leggur stundum í frostum, þar sem hann er straumalaus að mestu og eins og stöðuvatn. Því verður ekki neitað. En ísinn á honum er oft traustur, og má þá flytja á honum, eins og tíðkast hefir stundum áður. Síðasta vetur voru t. d. settar vörurnar upp á ísinn hjá Staðarfelli og síðan fluttar þaðan inn í dalina. Svo mætti Norðlendingar flytja vörur sínar í ísárum.

Alt þetta sýnir, hversu mikið hagræði mundi verða að flutningabraut þessari, og ætti það að nægja til þess, að hið háa Alþingi sæi sjer fært að leggja í þann kostnað að leggja hana.

Jeg skal nú ekki segja fleira um málið, en vil að eins biðja háttv. frsm. (G. Sv.) að nefna það í næstu ræðu sinni, að þetta verði athugað.

Sömuleiðis vona jeg, að það verði íhugað af hæstv. stjórn, sem að vísu er hjer ekki viðstödd, en hún kann að hafa einhver leyniskilningarvit, svo að hún heyri mál mitt fyrir því; annars kynni hún ef til vill að lesa þessa ræðu mína, ef jeg sendi henni hana sjerprentaða.

Jeg vona svo, að þetta nægi til að koma málinu á rekspöl, og að jeg hafi ekki gert kjósendum mínum neitt ógagn með því að flytja ekki sjerstakt frv. um þetta.