09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

119. mál, vegamál

Þorsteinn Jónsson:

Til viðbótar því, sem hv. frsm. (G. Sv.) tók fram, vildi jeg segja nokkur orð til árjettingar um þá till., að rannsakað verði, hvort ekki sje rjett að fjölga þjóðvegum og flutningabrautum.

Jeg lít svo á, að sú rannsókn gæti meðal annars orðið til þess, að jafnað yrði að nokkru misrjetti það, sem nú á sjer stað um skiftingu vega í sýsluvegi og þjóðvegi. Um leið mundi og minka misrjettið, sem kemur fram í fjárframlögum hins opinbera til vega í hinum ýmsu hjeruðum.

Skifting vega, sú sem nú er ákveðin í vegalögunum, virðist að miklu leyti af handahófi ger, því að þar eru sumir vegir taldir til sýsluvega, þótt með fullum rjetti mættu þjóðvegir teljast.

Vil jeg í því sambandi sjerstaklega benda á aukapóstleiðina frá Fljótsdalshjeraði um Vopnafjörð, Bakkafjörð og Norður-Þingeyjarsýslu til Húsavíkur við Skjálfanda.

Þar er um stóran landshluta að ræða, hvorki meira nje minna en nærri þrjár sýslur.

Nú liggur þjóðvegurinn milli Norðurlands og Austurlands um fjöll og firnindi, þar sem dagleiðir eru víða bæja á milli. Norðausturkjálki landsins notar þennan veg ekki. Hann er að eins farinn frá nokkrum hluta Múlasýslna til Akureyrar. Aftur á móti er hann ekki farinn þegar farið er milli norðurhluta Norður-Múlasýslu og Norðurlands, og Norður-Þingeyjarsýsla notar hann aldrei.

Það má telja víst, að aldrei muni ríkissjóður miklu kosta til þessa svo nefnda þjóðvegar, sem liggur frá Mývatni til Jökuldals.

Mikill hluti hans er líka greiðfær fyrir hesta, og torfærur fáar, nema Jökulsá á Fjöllum. Auk þess er umferð um hann lítil, naumast aðrir en langferðamenn og aðalpóstur.

Til þess nú að gera mönnum ljóst, hvernig þessi nýi þjóðvegur á að liggja, skal jeg taka það fram, að til þess er ætlast, að hann liggi frá Fossvöllum út Jökulsárhlíð yfir Hellisheiði til Vopnafjarðar, þaðan um Sandvíkurheiði til Bakkafjarðar, um Brekknaheiði til Þistilfjarðar, þaðan til Axarfjarðar og þaðan til Húsavíkur.

Auðvitað verður það talsverður útgjaldaauki fyrir ríkissjóð að gera veg þennan góðan. En það er þó bót í máli, að stærsta torfæran, Jökulsá í Axarfirði hefir þegar verið brúuð. Lagði landssjóður fram fjeð til þeirrar brúargerðar, án framlags frá sýslunni, og er þar með í rauninni viðurkent að þetta sje vegur, er beri að gjalda fje til úr ríkissjóði, sem væri hann þjóðvegur.

Við hv. þm. N.-Þ. (P. J.) höfðum í hyggju að flytja brtt við vegalögin um þetta atriði, en hættum við það, er við urðum þess vísari, að háttv. samgöngumálanefnd, í samráði við vegamálastjóra vildi fremur fara þá leið að flytja till. um rannsóknir þessar. En þessi krafa er svo sjálfsögð, að jeg vona, að hún gangi greiðlega fram.