09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

119. mál, vegamál

Pjetur Þórðarson:

Jeg vildi gera ofurlitla grein fyrir viðaukatill. á þgskj 300. Á síðasta sýslufundi í Mýrasýslu var meðal annars samþ. till., sem jeg með leyfi hæstv. forseta skal lesa hjer upp. Hún er svo hljóðandi:

„Þá samþykkir sýslunefndin að skora á Alþingi að taka vegalögin á næsta þingi til gagngerðar endurskoðunar og lýsir því jafnframt yfir, að hún telur rjett, að landssjóður taki að sjer viðhald allra flutningabrauta, en að sýslufjelögin taki aftur á móti meiri þátt í stofnkostnaðimun en nú er“.

Var mjer svo sem þm. kjördæmisins falið að skýra Alþingi frá ástæðunum fyrir þessari áskorun.

Það mætti segja, að helstu ástæðurnar felist í því, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) tók fram áðan, að þessar brautir, bæði brautin hjer austur um sýslur og brautin uppi í Borgarfirði, hafa verið þannig gerðar í fyrstu, að þær hafa fljótt látið á sjá. Hafa bæði brýr og rennur reynst mjög illa. Auk þess er landslagi svo háttað að þar er flatlent og því mjög vatnsagasamt, og hefir það spilt vegunum að miklum mun, vegna þess, að ekki hefir verið tekið nægilegt tillit þessara staðhátta við upphaflega gerð veganna. En þar sem brautir þessar hafa ekki verið nógu vel úr garði gerðar í upphafi, og miklu ver en nú gerist, hefir viðhald þeirra orðið mjög dýrt.

Reyndin hefir líka orðið sú í þessum hjeruðum, að þrátt fyrir hina miklu þörf á umbótum annara vega, hefir næstum verið þvertekið fyrir framkvæmdir í þá átt; alt hefir gengið til viðhalds þessara aðalflutningabrauta.

Þetta er þá ein aðalástæðan fyrir því, að sýslunefndin skorar á þingið að taka vegalögin til endurskoðunar. Telur hún það miklu heppilegra, að ljett verði þessari byrði af sýslufjelögunum í framtíðinni; aftur á móti vill hún, að hjeruðin taki þátt í stofnkostnaði nýrra flutningabrauta, sem telja má víst að lagðar verði, og vakir það fyrir henni, að með því móti verði betur til þeirra vandað.

Sýslunefndin fer því ekki fram á, að tekið verði af sýslufjelögunum viðhald veganna, þannig að ekkert komi í staðinn.

Brtt. á þgskj. 300 ræðir eingöngu um það, að rannsakað verði, hvort ekki sje rjettast að ljetta viðhaldi veganna af sýslufjelögunum, en þar með er ekki sagt, að nauðsynlegt sje að gera það alstaðar. Að minsta kosti þarf till. ekki að fela í sjer þá meiningu, heldur að eins, að nauðsynlegt sje að íhuga þetta atriði.

Hv. frsm. (G. Sv.) segir, að áður hafi komið fram lík till. og þetta, og var hún íhuguð töluvert af nefndinni, sem komst þó að þeirri niðurstöðu, að óráðlegt væri að rannsaka þetta nokkuð frekar.

En það þykir mjer nokkuð langt gengið, því að þótt nefndin hafi fengið margar góðar upplýsingar um þetta mál, þá er þó margt órannsakað enn.

Mig furðar því á, að jafnframsýnn maður og hv. frsm. (G. Sv.) er skuli ekki kannast við, að enn þurfi að íhuga þetta frekar.

Þótt komið hafi áður fram till. líkar þessari og verið samþyktar hjer á Alþingi, þá hefir mönnum ekki gefist kostur á að sjá árangurinn af rannsókn á þeim. Að minsta kosti er mjer ekki kunnugt um, að neitt hafi verið gert til þess að íhuga þetta mál, nema þá mjög lauslega, og allra síst hvað leitt hefir til þeirrar niðurstöðu, sem nefndin hefir komist að.

Það er nú ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fara nú að tína fram einstök atriði, sem gætu orðið til stuðnings þeirri skoðun, að þetta beri enn að athuga. En þó get jeg ekki stilt mig um að fara út í eitt atriði, sem hv. frsm. (G. Sv.) drap á og þóttist sýna, að hjer gæti ekki komið til greina, en við háttv. þm. Borgf. (P. O.) teljum miklu máli skifta í þessu sambandi.

Það er, að alt mælir með því, að telja flutningabrautina í Borgarfirði, eða að minsta kosti nokkurn hluta hennar, til alþjóðarvegar.

Jeg skil ekki, að því verði neitað, að sjóleiðin frá Reykjavík til Borgarness og leiðin þaðan vestur um og norður um land sje alþjóðarvegur.

Og þótt svo sje, að hjeraðið sjálft hafi brautarinnar mest not, þá kemur það ekki í bága við þá skoðun, að hún sje alþjóðarvegur.

Sama er að segja um flutningabrautina hjeðan frá Reykjavík og austur um sýslur. Ef hún á ekki að teljast alþjóðarvegur. þá veit jeg ekki, hvað nefna má því nafni.

Nú eru margir á þeirri skoðun, að skifting veganna, eða viðhaldskostnaðar þeirra, niður á hjeruðin komi ekki rjett niður.

Það mál þarf því að athuga betur.

En þar sem nú á að fela hæstv. stjórn að íhuga þetta mál alt frá ýmsum hliðum, þá finst mjer það hálfgerð meinbægni, ef jeg mætti svo segja, að vilja ekki lofa þessari viðaukatill. að fljóta með.

Jeg býst svo ekki við, að það komi að notum, þótt færð sjeu fleiri rök fyrir till. þessari, enda tel jeg hana svo meinlausa, að jeg treysti því, að hv. deild samþykki hana.